Frumvarp um breytingar á lögum er varða ökutæki

Þriðjudagur, 7. desember 2010

 
Nefndasvið Alþingis
Efnahags- og skattanefnd
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík
Reykjavík, 6. desember 2010
Umsögn Neytendasamtakanna um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 29/1993 um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., lögum nr. 39/1988, um bifreiðagjald, og lögum nr. 87/2004 um olíugjald og kílómetragjald, með síðari breytingum (kerfisbreyting í skattlagningu ökutækja), 197. mál. 
Neytendasamtökin gera í sjálfu sér ekki athugasemdir við það að skattlagningu á bifreiðar verði hagað á þann hátt að neytendur séu hvattir til að kaupa bifreiðar sem menga minna enda megi með því minnka losun á koltvísýringi. 
           
Hins vegar gera samtökin alvarlegar athugasemdir við það að þessar breytingar muni leiða til hækkunar á bifreiðagjöldum, sbr. 8. gr. frumvarpsins, en gert er ráð fyrir hækkun bifreiðagjalda um 200 milljónir í heildina, sbr. ummæli í almennum athugasemdum með frumvarpinu og umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Bifreiðagjöld hafa þegar hækkað gríðarlega frá hausti 2008 og yrði hér um fjórðu hækkunina á þeim tíma að ræða, en hækkunin er þegar orðin 36% á þessu tímabili. Samkvæmt athugasemdum með frumvarpinu mundi þessi breyting, verði frumvarpið að lögum, leiða til þess að um helmingur þeirra sem eiga venjulegar fólksbifreiðar (upp að 1.250 kílóum að eigin þyngd) mun greiða hærra bifreiðagjald en nú er, en ekki er ljóst af athugasemdunum hvernig þessi breyting bitnar á þeim sem eiga bifreiðar í þyngdarflokknum 1.250-3.000 kíló. Neytendasamtökin ítreka þá skoðun sína að bifreiðaeigendur megi alls ekki við frekari hækkunum og leggjast því gegn hugmyndum um breytingar á bifreiðagjaldi eins og þær eru settar fram í frumvarpi þessu.

Virðingarfyllst,
f.h. Neytendasamtakanna
Hildigunnur Hafsteinsdóttir

Slóðin á frumvarpið er