Frumvarp um breytingar á ýmsum lögum vegna lána tengdum erlendum gjaldmiðlum

Fimmtudagur, 16. mars 2017

Nefndasvið Alþingis  
Efnahags- og viðskiptanefnd
Austurstræti 8 - 10    
150 Reykjavík

                                                                                   Reykjavík, 16. mars 2017

 

Efni: Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, lögum um Seðlabanka Íslands, lögum um neytendalán og lögum um fasteignalán til neytenda (lán tengd erlendum gjaldmiðlum), 216. mál

Neytendasamtökin senda nú frá sér umsögn um frumvarp til breytinga á ýmsum lagabálkum sem felur í sér lögleiðingu lána sem tengd eru erlendum gjaldmiðlum. Undanfarin ár hafa samtökin sent frá sér umsagnir um skyld mál, sbr. þingmál nr. 561 frá 144. löggjafarþingi og þingmál nr. 384 frá 145. löggjafarþingi. Það mál sem um ræðir hér á það sameiginlegt með þessum málum að fela í sér EES-reglur sem íslenska ríkinu ber að innleiða og hafa samtökin komið með margvíslegar athugasemdir um þessi frumvörp. Þó nokkrar breytingar hafa orðið á efni frumvarpsins á undanförnum árum og vilja samtökin gera eftirfarandi athugasemdir nú:
 

Um breytingar á lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001

Þegar fjármála- og efnahagsráðuneytið vann að drögum að frumvarpi sem fól í sér breytingar á vaxtalögum, sbr. þingmál nr. 561 frá 144. löggjafarþingi, voru drögin borin undir Neytendasamtökin. Þá bentu samtökin á að hvergi í lögum um vexti og verðtryggingu væri að finna ákvæði um eftirlit opinberra aðila né að fjallað væri um viðurlög við brotum á ákvæðum laganna. Úr þessu var bætt með lögum nr. 58/2015 og hefur Fjármálaeftirlitið nú eftirlit með ákvæðum laganna, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi nr. 87/1998. Þessu fagna Neytendasamtökin, enda mikilvægt að fylgst sé með þessum vettvangi sérstaklega. Nú stendur til að breyta ákvæðum vaxtalaga með þeim hætti að tekin verði úr sambandi möguleg tenging við hlutabréfavísitölur í lánasamningum við neytendur. Einnig stendur til að breyta ákvæðum á þann veg að skuldbindingar sem varða lánsfé í erlendum gjaldmiðlum falli ekki undir VI. kafla laganna sem fjallar um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár. Neytendasamtökin hvetja til þess að umræddar reglur séu innleiddar með þeim hætti að neytendur njóti vafans, enda eru neytendur sá hagsmunahópur sem á mest undir verði frumvarpið að lögum. Í því ljósi taka samtökin undir að rétt sé að lán sem tengd er erlendum gjaldmiðli séu ekki verðtryggt, enda eru þá önnur og ytri atvik sem geta haft áhrif á höfuðstól lánsins til hækkunar en möguleg verðbólga.

 

Um breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands nr. 36/2001

Með 3. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að Seðlabanki Íslands geti sett lánveitendum reglur um erlend lán í þeim tilgangi að takmarka slíkar lántökur aðila sem ekki eru varðir fyrir gjaldeyrisáhættu. Neytendasamtökin telja mikilvægt að þær reglur séu skýrar og afdráttar-lausar, þannig að þær verði til þess að sú lántaka sem um ræðir hér sé verulega takmörkuð. Þó er rétt að benda á að svo virðist vera raunin, með vísan til þeirra breytinga sem stendur til að gera á öðrum lögum samhliða þessum breytingum.

Upphaflega var gert ráð fyrir því að ráðherra geti með reglugerð sett skilyrði fyrir lánveitingu, t.a.m. að greiðslumat vegna láns væri bundið við tekjur í viðkomandi gjaldmiðli o.fl., en nú virðist hafa verið fallið frá því og þær reglur frekar færðar inn í lög um neytendalán nr. 33/2013. Þessu fagna samtökin sérstaklega og telja mun betra fyrir neytendur, sem og aðra lántaka, að slíkar reglur séu lögfestar eins og nú stendur til að gera.

 

Um breytingar á lögum um neytendalán nr. 33/2013       

Í 7. gr. frumvarpsins kemur fram að það sé forsenda lánveitingar tengdri erlendum gjaldmiðli að lántaki hafi staðist greiðslumat og telja samtökin þá reglu vera af hinu góða. Lán sem þessi ættu í raun ekki að vera í boði nema fyrir þá sem sannanlega hafa nægilegar tekjur í viðkomandi gjaldmiðli til þess að standa undir greiðslubyrði lánsins, enda sveiflast tekjur viðkomandi þá upp og niður samhliða afborgun lánsins hverju sinni. Hér ber þó að gæta að því að skoða verður heildstætt skuldbindingar viðkomandi lántaka, þar sem skuildbindingar t.d. í íslenskri mynt geta haft áhrif á greiðslugetu í erlendri mynt þegar tekjur viðkomandi eru í erlendri mynt. Ennfremur vilja samtökin gera athugasemdir við efni 8. gr. þar sem fram koma aðrar ástæður en tekjur í viðkomandi gjaldmiðli sem heimilað geta lánveitingu. Þar er fjallað annars vegar um að viðkomandi neytandi hafi staðist greiðslumat þar sem gert var ráð fyrir verulegum gengisbreytingum og hækkunum á vöxtum og hins vegar ef neytandi getur lagt fram viðeigandi fjárhagslegar tryggingar sem draga verulega úr gjaldeyrisáhættu hans vegna lánsins á lánstímanum. Neytendasamtökin telja þessar reglur einfaldlega of opnar og óskýrar svo hægt sé að byggja á þeim. Þannig liggur ekki fyrir hvað telst ,,nægilegt" í þessu sambandi þegar kemur að tekjum né hvað telst veruleg gengisbreyting eða veruleg hækkun á vöxtum. Þá er ekki útséð fyrir hvað myndi teljast ,,viðeigandi" þegar kemur að fjárhagslegum tryggingum sem draga eigi úr gjaldeyrisáhættu. Þannig telja samtökin að ráðherra muni þurfa að skýra þessi atriði í reglugerð og að miða þurfi við meiri hækkanir á gengi og vöxtum en vísað er til í athugasemdum með efni frumvarpsins.

Þá vilja samtökin benda á að mikilvægt sé að réttur neytenda til uppgreiðslu láns verði tilgreindur sérstaklega, þannig að komið sé í veg fyrir að tekið sé gjald samhliða uppgreiðslu á láni tengdu erlendum gjaldmiðli. Í lögum um neytendalán er þessi réttur neytenda tryggður en þar eru jafnframt tilgreind sérstaklega þau tilvik þegar fjármálafyrirtæki er óheimilt að krefjast uppgreiðslugjalds. Þannig er fjármálafyrirtæki ekki heimilt að krefjast uppgreiðslugjalds þegar lán ber breytilega vexti, sbr. c liður 5. mgr. 18. gr. laga um neytendalán og telja samtökin að lán sem tengd eru erlendum gjaldmiðli svipi til slíkra lána og að réttur neytenda væri best tryggður ef bætt yrði við sérstökum lið þar sem fram kæmi að óheimilt sé að krefjast uppgreiðslugjalds ef lán er tengt erlendum gjaldmiðli.

Að öðru leyti eru ekki gerðar athugasemdir við frumvarpið á þessu stigi málsins.

Virðingarfyllst,
f.h. Neytendasamtakanna   

 

                                                                             
Hrannar Már Gunnarsson, lögfræðingur.

Frumvarpið má finna hér.