Lagafrumvarp um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa

mánudagur, 23. febrúar 2004

 

Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 23. febrúar 2004

Efni: Umsögn Neytendasamtakanna um frumvarp til laga um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa, 462. mál.

I. KAFLI
Um 9. gr.
Neytendasamtökin vilja ítreka fyrri athugasemdir sínar við þessa grein. Í umfjöllun í frumvarpi um 2. mgr. 14. gr. til laga nr. 40/2002 um fasteignakaup er kveðið á um skyldu til að greiða ýmiss konar sérfræðikostnað tengdan kaupum. Í fyrsta lagi er mælt fyrir um að sá sem leitar aðstoðar miðlara er hafi milligöngu um kaupin skuli greiða kostnað hans. Með kostnaði er hér átt við söluþóknun og annan kostnað sem fylgir kaupum og greitt er fyrir sérstaklega, t.d. auglýsingarkostnað. Í frumvarpinu segir ennfremur að ef viðsemjandinn feli miðlara sérstök verkefni í sína þágu sé það gagnaðila óviðkomandi.

Tíðkast hafi að fasteignasalar, sem fengið hafa eign til sölumeðferðar frá seljanda, geri kaupanda reikning fyrir þeim viðvikum sem hann óski sérstaklega eftir að þeir sinni fyrir hann. Ennfremur segir að frumvarpið geri ekki tillögur til breytinga á þeirri skipan þar sem talið er eðlilegra að það sé gert með breytingum á lögum um fasteigna-, fyrirtækja- og skipasölu ef ástæða þyki til.

Á undanförnum árum hefur það aukist verulega að lögð sé umsýsluþóknun á kaupendur. Verða samtökin í vaxandi mæli vör við að kaupendum sé gerður reikningur vegna atriða sem samtökin telja eðlilegan hluta af söluferlinu og falli undir söluþóknunina. Vissulega er það til bóta að með frumvarpi því sem hér er til umsagnar sé lögð sú skylda á fasteignasala að gera samning við seljanda og kaupanda. Hins vegar telja Neytendasamtökin að kaupanda skorti leiðbeiningar um það hvaða verk sé eðlilegt að gera honum reikning fyrir. Telja samtökin að það væri til bóta að skilgreina hvað það er sem felst í söluþóknuninni sem slíkri og fyrir hvaða verk sé eðlilegt að fasteignasali sendi seljanda eða kaupanda sérstakan reikning.

II. KAFLI
Neytendasamtökin telja nauðsynlegt að tryggt sé að starfsfólk fasteignasala eða þeir sem hann hefur í þjónustu sinni hafi nauðsynlega þekkingu til að sinna fasteignaviðskiptum. Viðskiptin eru flókin og varða mikils verð réttindi. Í sumum tilvikum hafa fasteignasalar fjöldann allan af fólki í sinni þjónustu. Jafnvel þótt ljóst sé skv. frumvarpinu að fólk í þjónustu fasteignasala starfi á hans ábyrgð kemur það aðeins til skoðunar eftir að tjón hefur orðið. Mikilvægt er að reyna að koma í veg fyrir tjón og í því sambandi skiptir miklu máli að allir sem starfa við fasteignaviðskipti hafi grundvallarþekkingu til að bera.

Gera samtökin að tillögu sinni að eftirfarandi ákvæði verði tekið upp í II. kafla frumvarpsins vegna fólks í þjónustu fasteignasala.

Fasteignasali skal:

1. Takmarka fjölda þeirra er starfa á hans vegum við fasteignaviðskipti svo fullvíst megi telja að hann hafi yfirsýn yfir rekstur viðkomandi fasteignasölu.
2. Sjá til þess að þeir sem starfa á hans vegum við fasteignaviðskipti búi yfir nægilegri þekkingu og starfsreynslu til starfans og hefji ekki störf fyrr en þeir búa yfir slíkri þekkingu.
3. Gera þeim sem starfa á hans vegum við fasteignaviðskipti grein fyrir meginatriðum þessara laga, auk laga um fasteignakaup.
4. Gæta þess að þeir sem starfa á hans vegum við fasteignaviðskipti geri það í fullu samræmi við þær reglur sem gilda um slík viðskipti auk þess sem starfið sé leyst af hendi í samræmi við góðar venjur og viðskiptahætti í fasteignaviðskiptum.

III. KAFLI
Um 19. og 20 gr.

Neytendasamtökin ítreka fyrri athugasemdir sínar við greinina. Eins og staðan er í dag geta neytendur ekki leitað til neins hlutlauss aðila annars en dómstóla með deilumál sín við fasteignasala. Augljóslega er það gríðarlega tímafrekt og kostnaðarsamt og tryggir engan veginn að neytendur geti náð fram rétti sínum á skjótan, einfaldan og hagkvæman hátt. Benda samtökin á úrskuðarnefndir á öðrum Norðurlöndum sem hafa það hlutverk að skera úr deilumálum sem upp koma á milli fasteignasala og viðskiptavina þeirra, t.d. úrskurðarnefnd um fasteignamál í Danmörku, Klaganævnet for ejendomsformidling.

Telja Neytendasamtökin þörfina fyrir úrskurðarnefnd vera slíka að ekki sé fært að afskrifa hana vegna kostnaðar sem henni myndi fylgja. Ljóst er að sá kostnaður er aðeins brot af þeim kostnaði sem fylgir dómsmálum. Neytendasamtökin gera þá kröfu að úrskurðarnefnd verði stofnuð og að Neytendasamtökunum verði falið að tilnefna fulltrúa í nefndina og annan til vara.

Neytendasamtökin gera ekki athugasemdir við aðrar greinar frumvarpsins og mæla með lögfestingu þess.

Virðingarfyllst,
f.h. Neytendasamtakanna,
_______________________________
Íris Ösp Ingjaldsdóttir, lögfr.