Lagafrumvarp um vátryggingasamninga

Þriðjudagur, 20. janúar 2004

 

Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis
Alþingi
150 Reykjavík

Reykjavík, 20. janúar 2004

Efni: Umsögn Neytendasamtakanna um frumvarp til laga um vátryggingasamninga.

Neytendasamtökin telja að frumvarpið sem nú liggur fyrir sé til verulegra bóta fyrir neytendur enda í því að finna ýmis nýmæli sem samtökin telja nauðsynlegt að lögfesta til að tryggja rétt neytenda. Neytendasamtökin mæla því eindregið með því að frumvarpið verði samþykkt.

Eina athugasemd Neytendasamtakanna við frumvarpið er vegna ákvæðis 141. gr. um úrskurðarnefnd í vátryggingamálum. Í ákvæðinu er ekkert komið inn á hversu víðtækt starfssvið nefndarinnar skuli vera heldur einungis vísað almennt til samnings viðskiptaráðherra, Neytendasamtakanna og Sambands íslenskra tryggingafélaga og samþykkta nefndarinnar.

Neytendasamtökin telja nauðsynlegt að lög um vátryggingasamninga mæli skýrt fyrir um að úrskurðarnefnd í vátryggingamálum skuli heimilt að úrskurða um hvers konar ágreiningsefni er varðar vátryggingasamning, svo sem um sakarskiptingu, uppgjör bóta, bótafjárhæð og túlkun á vátryggingaskilmálum. Af þeim sökum leggja Neytendasamtökin til að 2. mgr. 141. gr. verði svohljóðandi:

Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum skal heimilt að leysa úr hvers konar ágreiningi er varðar vátryggingasamning, svo sem um sakarskiptingu, uppgjör bóta, bótafjárhæð og túlkun á vátryggingarskilmálum. Úrskurðarnefndin skal kveða upp rökstudda úrskurði og verður þeim ekki skotið til stjórnvalda, en heimilt er aðilum máls að leggja ágreining sinn fyrir dómstóla með venjulegum hætti.

Neytendasamtökin telja að með samþykkt frumvarpsins verði staða neytenda bætt til samræmis við það sem hún er á hinum Norðurlöndunum og lýsa því yfir eindregnum stuðningi við frumvarpið.

Virðingarfyllst,
f.h. Neytendasamtakanna

Ólöf Embla Einarsdóttir, hdl.