Mat á hagsmunum við aðild að ESB

Fimmtudagur, 19. febrúar 2009

 

Neytendasamtökunum barst erindi frá nefnd um þróun Evrópumála þar sem óskað var eftir sjónarmiðum Neytendasamtakanna varðandi aðild að ESB. Svar Neytendasamtakanna var svohljóðandi:

Til nefndar um þróun Evrópumála.
Forsætisráðuneytinu

Að mati Neytendasamtakanna hafa neytendur mikilla hagsmuna að gæta varðandi aðild að ESB. Evrópufræðasetrið á Bifröst vann á síðasta ári skýrslu fyrir Neytendasamtökin undir heitinu "Hverju myndi ESB aðild breyta fyrir íslenska neytendur?". Niðurstaða skýrslunnar var m.a. sú að verðlag hér á landi, sérstaklega á matvælum, myndi lækka verulega auk þess sem vextir myndu lækka töluvert. Sjá nánar fréttatilkynningu og skýrslu á heimasíðu Neytendasamtakanna.

Þar sem neytendamál falla undir EES-samninginn hafa tilskipanir ESB á þessu sviði verið teknar upp í íslenska löggjöf. Þetta hefur haft mikla þýðingu er varðar betri neytendavernd hér á landi.

Umræða er um það innan ESB að tilskipanir á neytendasviði verði samræmdar milli landa og að eitt aðildarlanda má ekki hafa strangari reglur en kveðið er á um í tilskipunum ESB. Neytendasamtök í löndum Norður-Evrópu, en þar er neytendalöggjöf hvað best, hafa verulegar áhyggjur af þessu þar sem ætla má að neytendavernd í þessum löndum verði lakari í framtíðinni ef þetta verður niðurstaðan.

Á síðasta þingi Neytendasamtakanna sem haldið var 19.-20. september sl. var samþykkt svohljóðandi ályktun: "Þing Neytendasamtakanna telur tímabært að við látum reyna á það með aðildarviðræðum hvort hægt sé að ná viðunandi samningum í málum er varða sjávarútveg og landbúnað. Ljóst er að hagmunir heimilanna í þessu máli eru það miklir að ekki er ástæða til bíða lengur að láta reyna á þessa þætti með aðildarviðræðum. Það yrði að sjálfsögðu þjóðin sem tæki lokaákvörðun um ESB aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu þegar samningar liggja fyrir."

Virðingarfyllst
f.h. Neytendasamtakanna
Jóhannes Gunnarsson formaður