Merking og rekjanleiki á erfðabreyttum matvælum og fóðri

Föstudagur, 1. október 2010

 

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið
Skúlagötu 4
150 Reykjavík

Reykjavík, 1. október 2010

Efni: Umsögn Neytendasamtakanna um drög að reglugerð um merkingu og rekjanleika erfðabreyttra matvæla og erfðabreytts fóðurs, tilv.:SLR10090091/3.2.4.

Neytendasamtökin fagna þeirri ákvörðun sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að setja reglugerð um rekjanleika og merkingar erfðabreyttra matvæla og fóðurs. Samtökin telja að þau drög sem lögð hafa verið fram til umsagnar feli í sér mikla réttarbót fyrir íslenska neytendur og leggja áherslu á að þau verði í öllum meginatriðum staðfest. Hér á eftir fara þó nokkrar athugasemdir varðandi einstök atriði draganna.
Um a-lið 3. mgr. 1. gr.:
Neytendasamtökin telja æskilegt að mörk tilfallandi mengunar í matvælum og fóðri séu sett við 0,1% sem er tæknilega auðgreinanlegt, í stað 0,9% sem fram koma í 1. gr. Þau mörk sem ESB hefur sett í þessum efnum eru að mati samtakanna hærri en þörf er á. Þau hafa til dæmis í för með sér að unnt er að selja 50 kg sekk af maís sem inniheldur allt að 450 gr. af erfðabreyttum maís án þess að þurfa að geta þess á umbúðum, ef seljandi leggur fram gögn því til staðfestingar að hafa gert “viðeigandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir að slíkt gerðist”, eins og það er orðað í 9. gr. án þess að skilgreint sé í hverju þær ráðstafanir skuli felast. Í þessu sambandi má benda á að í Frakklandi er t.a.m. miðað við 0,1% mörk.
Hvor viðmiðun sem ofan á verður, þá telja samtökin nauðsynlegt að hugtökin „tilfallandi mengun“ og „óhjákvæmilegar tæknilegar ástæður“ sbr. a-lið 3. mgr. 1. gr. og „viðeigandi ráðstafanir“ sbr. 3. mgr. 9. gr. séu skilgreind nánar, þannig að matvælafyrirtækjum svo og neytendum megi ljóst vera til hvers er ætlast í þeim efnum.
Um 2. gr.:
Samtökin leggja til að markmið reglugerðarinnar séu skýrð betur og samræmd sambærilegri löggjöf ESB. Þannig verði 2. gr. reglugerðarinnar svohljóðandi: „Markmið reglugerðarinnar er að tryggja rekjanleika matvæla og fóðurs sem samanstanda af erfðabreyttum lífverum eða innihalda erfðabreyttar lífverur eða afurðir þeirra, og afurða búfjár sem alið hefur verið á erfðabreyttu fóðri. Tilgangur þessa er að tryggja réttar merkingar slíkra afurða, stuðla að eftirliti með áhrifum þeirra á umhverfi og heilsufar, og skapa bættar forsendur fyrir viðeigandi áhættustjórnun, þ.m.t. banni við markaðssetningu á einstökum afurðum ef nauðsyn krefur.“
Um 3. mgr. 5. gr.:
Hér er að mati Neytendasamtakanna þörf á að tilgreina afdráttarlaust skyldu söluaðila, en ekki heimild, til að merkja erfðabreytt fóður. Lagt er til að 3. mgr. hefjist þannig: „Þegar fóðurfyrirtæki hefur ekki merkt fóðrið í samræmi við reglugerð þessa er dreifingaraðila skylt að merkja ...“.
Um 7. gr.:
Í þessari grein er fjallað um rekjanleika vara sem framleiddar eru úr erfðabreyttum lífverum og ætlaðar eru í matvæli og fóður. Hér er æskilegt að taka af öll tvímæli þannig að greinin taki til „erfðabreyttra lífvera og afurða þeirra“ og er lagt til að fyrirsögn og viðeigandi málsliðum 7. gr. verði breytt í samræmi við það.

Virðingarfyllst,
f.h. Neytendasamtakanna,
_______________________________
Hildigunnur Hafsteinsdóttir