Sameiginlegar reglur um flugrekstur og flugþjónustu innan EES

Miðvikudagur, 23. nóvember 2011

 

Neytendasamtökin hafa sent eftirfarandi umsögn um drög að reglugerð um sameiginlegar reglur um flugrekstur og flugþjónustu innan Evrópska Efnahagssvæðisins. Reglugerðin tekur meðal annars á um að heildarverð fargjalda komi skýrlega fram í öllu söluferlinu. Samtökin telja að kveða þurfi skýrar á um til hvaða opinberra gjalda og skatta ákvæðið vísar. Auk þess telja þau að sérstök gjöld sem bætt er við grunngjald fargjalds séu komin úr hófi fram.

Innanríkisráðuneytið
Sölvhólsgötu 7
150 Reykjavík

Reykjavík, 18. nóvember 2011

Efni: Umsögn Neytendasamtakanna við drög að reglugerð um sameiginlegar reglur um flugrekstur og flugþjónustu innan Evrópska Efnahagssvæðisins

Neytendasamtökin þakka fyrir tækifærið til að tjá sig um ofangreind reglugerðardrög. Samtökin telja aðeins ástæðu til að gera almennar athugasemdir við reglugerðardrögin.

Samtökin telja það til bóta að skýrt sé kveðið á um það að heildarverð fargjalda komi skýrlega fram í öllu söluferlinu, eins og raunar er í dag sbr. 5. mgr. 125. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998. Þá er með 6. gr. reglugerðarinnar kveðið skýrar á um það að opinber gjöld og skattar skulu birt sérgreind frá öðrum gjöldum, kostnaði og þóknun rekstraraðilans, þ.m.t. eldsneytisgjaldi.

Samtökin telja að kveða þurfi skýrar á um til hvaða opinberra gjalda og skatta ákvæðið vísar. Að mati samtakanna getur hér aðeins átt undir flugvallarskattar og gjöld vegna öryggisgæslu á flugvöllum sem eiga sér beina stoð í lögum og reglum um öryggisgæslu á flugvöllum. Önnur gjöld sem flugrekendur þurfa óhjákvæmilega að greiða vegna starfrækslu flugþjónustu eiga að mati samtakanna að vera innifalin í verði farmiða. Telja verður að þetta þurfi að koma skýrar fram í reglugerðinni.

Þá telja samtökin að sérstök gjöld flugrekenda, sem bætt er við grunnverð fargjalda, séu komin úr hófi fram. Má þar nefna svokallað eldsneytisgjald sem flugrekendur leggja nú á grunnverð farmiða sinna. Augljóst er að rekstur flugþjónustu kallar á að flugrekandi kaupi eldsneyti á vélar sínar. Eldsneytiskaup flugrekenda eru því órjúfanlegur þáttur í rekstri flugþjónustu og má því telja að útgjöld flugrekenda vegna eldsneytiskaupa eigi einfaldlega að vera innifalin í verði farmiða. Með því að sífellt fleiri þættir séu teknir út fyrir grunnverð farmiða er ljóst að verðsamanburður neytenda á farmiðum er gerður erfiðari. Þessi tilhneiging birtist einnig í svokölluðu bókunargjaldi þegar farmiðar eru bókaðir í gegnum vef flugrekenda. Samsvarandi gjald er ekki að finna víða og má t.a.m. nefna að þegar keypt er þjónusta á borð við hótelgistingu, miða í leikhús, tónleika og annað þvíumlíkt, er ekki krafið um sérstakt bókunargjald enda felst það í þjónustustarfseminni sem slíkri að taka við bókunum og selja þannig þjónustuna. Rétt er að taka fram að hér er ekki átt við staðfestingargjöld vegna bókunar, heldur einungis sérstakt bókunargjald sem lagt er á bókanir í gegnum vef flugrekenda. Sá kostnaður sem þjónustuveitandi hefur af því að taka við bókunum í þjónustuna er augljóslega hluti af rekstrarkostnaði flugrekandans og á sem slíkur að vera innifalinn í því verði sem flugrekandinn býður þjónustu sína á.

Þá ítreka samtökin fyrri afstöðu sína til valdmarka Flugmálastjórnar annars vegar og Neytendastofu hins vegar, en samtökin gerðu grein fyrir afstöðu sinni í umsögn dags. 11. maí 2010, við frumvarp það er varð að lögum nr. 87/2010 um breytingar á lögum um loftferðir nr. 60/1998. Þar sagði m.a. „Samkvæmt þessu ákvæði, sbr. 14. gr. frumvarpsins, er það Flugmálastjórn sem hafa skal eftirlit með því að verðupplýsingar til neytenda séu í samræmi við lögin. Neytendasamtökin fagna þeim ítarlegu reglum um verðmerkingar flugmiða sem lagðar eru til með þessu ákvæði. Hins vegar telja samtökin að ákvæði 13. gr. geti skarast nokkuð á við valdsvið Neytendastofu, sem samkvæmt lögum nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, sbr. reglur nr. 725/2008 um verðmerkingar og aðrar verðupplýsingar, setur reglur um verðmerkingar og hefur eftirlit með því að farið sé eftir þeim. Neytendasamtökin telja afar brýnt að eyða úr lögum allri óvissu um það hver skuli hafa eftirlit með þessum þætti, þar sem það getur m.a. valdið töfum á úrlausn mála sé almenningur í óvissu um það hvert hann á að snúa sér. Þá hlýtur það að vera einn af hornsteinum skilvirkrar stjórnsýslu að valdmörk milli stofnana séu skýr.“

Að öðru leyti gera Neytendasamtökin ekki athugasemdir við drög að ofangreindri reglugerð.

Virðingarfyllst,
f.h. Neytendasamtakanna,
_______________________
Hildigunnur Hafsteinsdóttir
_______________________
Heimir Skarphéðinsson