Þingsályktunartillaga um aðskilnað fjárfestinga- og viðskiptabanka

Fimmtudagur, 16. mars 2017

Nefndasvið Alþingis              
Efnahags- og viðskiptanefnd
Austurstræti 8 - 10    
105 Reykjavík

                                                                                 Reykjavík, 16. mars 2017

 

Efni: Umsögn um tillögu til þingsályktunar um aðskilnað
 fjárfestingarbanka og viðskiptabanka, 78. mál.

 

Neytendasamtökin lýsa yfir ánægju sinni með efni umræddrar tillögu til þingsályktunar, enda telja samtökin mikilvægt hagsmunamál fyrir neytendur að rekstur fjárfestingabanka sé klofinn frá rekstri almennra viðskiptabanka. Þrátt fyrir að fjárfestar séu í mörgum tilfellum neytendur verður að gera greinarmun á því þegar einstaklingar eða lögaðilar taka áhættu með fjármuni sína eða annarra annars vegar og almennum neytendamálum sem snúa þá að fjármögnun eðlilegra viðskipta eins og húsnæðis- eða bifreiðakaupa hins vegar. Eins og dæmin hafa sýnt eru það neytendur sem verða fyrir mestu höggi þegar hamfarir ganga yfir fjármálaheiminn og er það lágmarkskrafa að mati Neytendasamtakanna að sá áhættuþáttur sem tengist fjárfestingum á bankamarkaði sé ekki samofinn neytendalánum.

Rétt eins og nefnt er í texta tillögunnar byggist almenn bankastarfsemi, þ.e. sú starfsemi er snýr beint að neytendum, á inn- og útlánum. Starfsemi fjárfestingabanka er hins vegar mun margþættari, flóknari og áhættumeiri enda byggist hún á verðbréfum, hlutabréfum, eignastýringu o.fl. Þar getur borgað sig að taka áhættu en það getur einnig haft í för með sér alvarlegar afleiðingar. Þeir sem vilja stunda slík viðskipti eiga að gera það á eigin forsendum, en ekki þannig að þeirra mislukka bitni á neytendum sem tóku lán í þeim eina tilgangi að koma sér þaki yfir höfuð sitt og fjölskyldu sinnar. Í ljósi sögunnar verður að vernda neytendur sérstaklega fyrir slíkri áhættu og er tillagan sem um ræðir hér fyrsta skrefið í þá átt.

Með hliðsjón af framangreindu er það álit Neytendasamtakanna að neytendur eigi ekki að taka á sig áhættu af fjárfestingabankastarfsemi og eru samtökin því fylgjandi efni tillögunnar. Neytendasamtökin telja að aðgerðir þurfi að eiga sér stað sem allra fyrst, enda liggur fyrir að sú tillaga sem hér er til umfjöllunar hefur áður komið inn á borð þingsins án þess að hljóta þinglega meðferð. Það er því von samtakanna að nú verði gripið til aðgerða þegar kemur að þessu málefni og að sú vinna sem þarf að fara í hönd verði framkvæmd hratt og örugglega.

 

Virðingarfyllst,
f.h. Neytendasamtakanna   

 

Hrannar Már Gunnarsson, lögfræðingur.

Tillöguna má finna hér.