Þingsályktunartillaga um mótun stefnu til að draga úr notkun á skaðlegum efnum í neysluvörum

Miðvikudagur, 30. mars 2016

Nefndasvið Alþingis
Umhverfis- og samgöngunefnd
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík
Reykjavík 30. mars 2016

 

Efni: Umsögn um tillögu til þingsályktunar um mótun stefnu til að draga úr notkun á skaðlegum efnum í neysluvörum, 247. mál.

 

Fram kemur í greinargerð með þingsályktunartillögunni að mikill fjöldi efna í neysluvörum hafi ekki verið áhættumetin með tilliti til skaðlegra áhrifa á heilsu fólks og umhverfi, en það var fyrst árið 1981 að skylt varð að gera slíkt áhættumat. Það má því segja að enn séu framleiðendur að nota neytendur sem tilraunadýr varðandi það hvort eldri efni séu varasöm eða hættuleg neytendum. Eðlilegt er því að gera kröfu um að framleiðendum verði gert skylt að meta efni sem tekin voru í notkun fyrir þennan tíma. Einnig kemur fram í greinargerðinni að önnur Norðurlönd en Ísland hafa mótað sér stefnu í þessum málum. Neytendasamtökin telja mikilvægt að íslensk stjórnvöld móti sér einnig stefnu í þessum efnum þar sem tryggt er að varúðarreglan gagnvart neytendum sé í fyrsta sæti. Því fagna Neytendasamtökin þessari þingsályktunartillögu og hvetja til samþykktar hennar.

Virðingarfyllst
f.h. Neytendasamtakanna
Jóhannes Gunnarsson formaður

Slóðin á þingsályktunartillöguna er http://www.althingi.is/altext/145/s/0267.html.