Tillaga til þingsályktunar um úttekt á neytendavernd á fjármálamarkaði

Föstudagur, 2. nóvember 2012

 

Nefndasvið Alþingis
Allsherjar- og menntamálanefnd
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 2. nóvember 2011

Umsögn um tillögu til þingsályktunar um úttekt á neytendavernd á fjármálamarkaði, 12. mál.

Neytendasamtökin þakka fyrir tækifærið til að tjá sig um ofangreinda tillögu.

Þá taka samtökin heils hugar undir þau sjónarmið sem fram koma í tillögunni og greinargerð með henni. Ljóst er af atburðum undangenginna ára, hruni bankanna, og fjölda dómsmála í kjölfarið, að eftirliti með fjármálamarkaði hefur á margan hátt verið ábótavant. Þá er regluverk í kringum fjármálastarfsemi viðamikið og óaðgengilegt fyrir almenna neytendur og jafnvel óljóst hvert þeir geti leitað með erindi sín og ágreining.

Ljóst er að ýmislegt hefur staðið til bóta á síðastliðnum árum, m.a. hafa verið sett lög um greiðsluaðlögun, lög um umboðsmann skuldara, lög um ábyrgðarmenn og gerðar breytingar á lögum um vexti og verðtryggingu. Í öllum tilvikum virðist þó hafa verið um að ræða lagasetningu í þeim tilgangi að bregðast við vandamálum sem þegar voru komin upp fremur en að markmiðið hafi verið að móta heildstæða stefnu til framtíðar. Öll framangreind lagasetning er af hinu góða og vissulega nauðsynleg í kjölfar hruns viðskiptabankanna en æskilegt væri að staldra við og endurskoða núverandi lagaumhverfi með það í huga að styrkja stöðu neytenda á fjármálamarkaði og móta heildstætt eftirlitskerfi til framtíðar, enda brýnt að leita leiða til að koma í veg fyrir að atburðir þeir sem áttu sér stað í aðdraganda og kjölfar bankahrunsins endurtaki sig. Það verður varla gert nema með viðamikilli úttekt á reglum og eftirliti á fjármálamarkaði og nauðsynlegum breytingum í kjölfarið.

Neytendasamtökin fagna því framkominni tillögu og hvetja eindregið til samþykktar hennar.

Virðingarfyllst,
f.h. Neytendasamtakanna,
Hildigunnur Hafsteinsdóttir