Tillaga til þingsályktunar um aðgerðir til að efla og auðvelda póstverslun

mánudagur, 16. apríl 2012

 

Nefndasvið Alþingis
Umhverfis- og samgöngunefnd
Austurstræti 8 – 10
150 Reykjavík

Reykjavík, 16. apríl 2012

Athugasemdir Neytendasamtakanna við tillögu til þingsályktunar um aðgerðir til að efla og auðvelda póstverslun, 562. mál.

Neytendasamtökin fagna framkominni þingsályktunartillögu.

Samtökin hafa lengi barist fyrir því að net- og póstverslun verði gerð einfaldari, ódýrari og sköpuð betri samkeppnisstaða. Þannig sagði eftirfarandi í stefnu Neytendasamtakanna fyrir árin 2008 – 2010:

„Verslun um internetið veitir seljendum innanlands mikilvægt aðhald á samkeppnismarkaði og því er brýnt að auðvelda neytendum hér á landi viðskipti í netverslun. Þing Neytendasamtakanna leggur á það áherslu að töku opinberra gjalda og umsýslukostnaði verði haldið í lágmarki og gjaldtakan gerð gagnsærri. Slíkar breytingar vegna viðskipta í gegnum internetið veita innlendum fyrirtækjum aðhald með aukinni samkeppni.“

Á þingi samtakanna árið 2010 var þessi stefna svo ítrekuð og meðal annars gerð krafa um það að tollar og gjöld af smápökkum yrðu lögð af.

Evrópusambandið undanþiggur sendingar að verðmæti undir 20 evrum skatti. Það er ekki markmið að koma neytendum undan að greiða skatta en kostnaðurinn við umsýslu hefur virkað sem hindrun fyrir marga sem vilja kaupa á netinu. Eins og staðan er nú þurfa neytendur að greiða virðisaukaskatt af vörunni og flutningskostnaði. Jafnvel eftir að hafa líka greitt virðisaukaskatt í heimalandi seljanda, en ekki er algilt að seljendur dragi virðisaukaskatt af vöruverði áður en vara er send til Íslands. Þá þarf að greiða tollmeðferðargjald (nú 550 kr.) en auk þess þarf í sumum tilvikum að greiða toll af sendingunni. Allt þetta leiðir til þess að í mörgum tilvikum er kostnaður við þessi aukagjöld mun hærri en upprunalegt verð vörunnar.

Tölur um afgreiðslu smápakka hér á landi árið 2010 sýna að innheimtir skattar og gjöld af 3.630 sendingum voru lægri en 100 kr. vegna hvers pakka. Heildartekjur ríkisins af þessum pökkum voru 241.000 kr. en umsýslan við innheimtuna kostaði neytendur um tvær milljón króna í formi tollmeðferðargjalds. Þetta sýnir hversu óskilvirkt kerfið er og verndar í raun verslunina hér á landi gegn samkeppni erlendis frá.

Samkvæmt lögum nr. 121/2011 sem meðal annars leiddu til breytinga á lögum um virðisaukaskatt nr. 50/1988 eiga erlendir aðilar sem selja rafbækur, tónlist og tölvuleiki á netinu sjálfir að sjá um að innheimta og skila virðisaukaskatti  til ríkissjóðs (þetta á við um fyrirtæki sem selja fyrir meira en 1.000.000 kr. árlega til Íslands). Það þýðir að þegar erlend netverslun selur íslenskum neytendum rafrænar útgáfur á verslunin að leggja virðisaukaskatt á vöruna og skila til skattayfirvalda hér á landi. Ef þessum lögum verður framfylgt mun það setja tóninn fyrir einfaldara kerfi sem gæti komið íslenskum neytendum til góða.

Á málstofu Dr. Richard Pomp sem Neytendasamtökin tóku þátt í að skipuleggja kom fram að allar stærri netverslanir hafi kerfi til að innheimta skatta og gjöld fyrir önnur ríki. Það gæti verið leið til að einfalda póstverslun fyrir íslenska neytendur. Kreditkortafyrirtæki geta einnig séð um að leggja á gjöld og skila til viðkomandi ríkja þegar korthafi kaupir vöru af viðurkenndum netverslunum. Þetta myndi losa pósthúsið undan skriffinnsku og neytendur sjá endanlega upphæð á vörunni strax við greiðslu í netverslun.

Það er undir stjórnvöldum komið hvaða aðferðum er beitt  og allar þessar leiðir eru athugunarverðar fyrir Ísland.

Að öðru leyti taka samtökin undir þau sjónarmið sem reifuð eru í greinargerð með tillögunni, en ekki þarf að fjölyrða um það hversu brýnt er að draga úr hindrunum og því flækjustigi sem mætir íslenskum neytendum vilji þeir kaupa varning gegnum internetið.

Neytendasamtökin styðja því ofangreinda tillögu heils hugar og hvetja eindregið til samþykktar hennar.

Virðingarfyllst,
f.h. Neytendasamtakanna,
Hildigunnur Hafsteinsdóttir