Tillaga til þingsályktunar um mótun framleiðslustefnu í lífrænum landbúnaði

Föstudagur, 22. júlí 2011

 

Nefndasvið Alþingis
Sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 22. júlí 2011

Efni: Umsögn Neytendasamtakanna um tillögu til þingsályktunar um mótun framleiðslustefnu í lífrænum landbúnaði, 307 mál.

Neytendasamtökin telja mikilvægt að lífrænar ræktunar- og eldisaðferðir verði teknar upp í íslenskum landbúnaði og að hið opinbera leiðrétti margvíslega mismunun sem þeir bændur búa við sem tekið hafa upp slíkar aðferðir.

Neytendasamtökin telja það ekki í verkahring hins opinbera að hlutast til um framboð og eftirspurn á markaði, þar á meðal með lífrænar afurðir, og því ber að varast bein afskipti þess af framleiðslu. Samtökin telja því æskilegt að tillagan fjalli um mótun stefnu um eflingu lífrænna aðferða í landbúnaði (í stað framleiðslustefnu).

Á hinn bóginn er nauðsynlegt að stjórnvöld skapi atvinnulífinu skilyrði til að uppfylla kröfur neytenda um heilnæmar, næringarríkar og ómengaðar matvörur sem framleiddar eru með sem náttúrulegustum aðferðum, góðri meðferð lands og með velferð búfjár að leiðarljósi.

Jafnframt telja Neytendasamtökin að stjórnvöldum beri að marka stefnu um eflingu lífrænnar framleiðslu sem lið í alþjóðlegum skuldbindingum Íslands um að stuðla að sjálfbærri þróun.

Neytendasamtökin eru fylgjandi því að hið opinbera veiti aðlögunarstyrki til bænda sem taka upp lífrænar aðferðir, en leggja áherslu á að slíkir styrkir séu skilyrtir því að farið sé að alþjóðlegum vottunarkröfum, að þeir séu tímabundnir, að reglur og fyrirkomulag um úthlutun þeirra séu gegnsæ og stuðli að ábyrgum búrekstri.

Virðingarfyllst,
f.h. Neytendasamtakanna,
Jóhannes Gunnarsson formaður

Slóðin á þingsályktunartillöguna er