Tillaga til þingsályktunar um setningu reglna um hámark transfitusýra í matvælum

Miðvikudagur, 3. nóvember 2010

 

Nefndasvið Alþingis
Alþingi
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Akureyri 1. nóvember 2010

Efni: Umsögn Neytendasamtakanna um tillögu til þingsályktunar um setningu reglna um hámark transfitusýra í matvælum, 11. mál.

Neytendasamtökin fagna tillögu til þingsályktunar um setningu reglna um hámarksmagn transfitusýra í matvælum og telja löngu tímabært að stjórnvöld grípi til aðgerða.

 
Neytendasamtökin hafa ítrekað hvatt til þess að íslensk stjórnvöld fari að dæmi Dana og setji reglur sem takmarka magn um transfitusýrur í matvælum og var erindi þess efnis var sent til umhverfisráðherra og heilbrigðisráðherra í janúar 2007.  Neytendasamtökin hafa einnig sent jákvæðar umsagnir við fyrri  þingsályktunartillögur sama efnis.

Neytendasamtökin hvetja Alþingi til að hafa hagsmuni neytenda að leiðarljósi og láta lýðheilsusjónarmið ráða för líkt og Danir hafa gert. Transfitusýrur eru ekki nauðsynlegar í matvælaframleiðslu og margir framleiðendur hafa breytt framleiðsluháttum sínum á undanförnum árum. Það er óumdeilt að transfitusýrur eru óhollar og því er ábyrgðarhluti hjá stjórnvöldum að aðhafast ekkert í þessu máli.

Eflaust verður þróunin sú að svokallaðar iðnaðarframleiddar transfitusýrur verði alfarið bannaðar en íslenskir neytendur eiga ekki að þurfa að bíða eftir tilskipun frá Evrópusambandinu. Íslensk stjórnvöld geta tekið af skarið og ber skylda til þess að mati Neytendasamtakanna.

Slóð á þingskjal

Virðingarfyllst
f.h. Neytendasamtakanna
_________________________________
Brynhildur Pétursdóttir