Tillaga til þingsályktunar um aðgerðir til að draga úr matarsóun

Fimmtudagur, 6. nóvember 2014

Nefndasvið Alþingis
Atvinnuveganefnd
Austurstræti 8 – 10
150 Reykjavík

Reykjavík, 4. nóvember 2014.

Umsögn Neytendasamtakanna við tillögu til þingsályktunar um aðgerðir til að draga úr matarsóun, 21. mál.

Neytendasamtökin fagna framkominni þingsályktunartillögu og taka fyllilega undir þá umfjöllun sem fram kemur í greinargerð með henni.

Hins vegar ber að líta til þess að samkvæmt frétt af heimasíðu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins dags. 29. september sl. hefur þegar verið skipaður starfshópur sem ætlað er að móta tillögur um hvernig megi draga úr sóun matvæla. Hann hefur þannig nokkuð annað hlutverk en sá hópur sem lagt er til að verði skipaður á grundvelli framangreindrar þingsályktunartillögu en þar er lagt til að skipaður verði starfshópur sem hefur það markmið að „mæla og greina umfang matarsóunar á Íslandi og leggja fram tillögur um aðgerðir til að draga úr matarsóun.“ Þannig virðist hópurinn sem þegar hefur verið skipaður eiga að finna leiðir til úrbóta en hópnum sem þingsályktunartillagan gerir ráð fyrir virðist jafnframt ætlað frekara rannsóknarhlutverk þegar kemur að matarsóun.

Neytendasamtökin hafa margsinnis á undanförnum árum fjallað um matarsóun, bæði á heimasíðu sinni og eins í Neytendablaðinu, og gáfu nýverið út áskorun til framleiðenda og verslana um að lækka sérstaklega í verði vörur sem ættu stuttan sölutíma eftir, enda mundi slíkt leiða bæði til minni sóunar og eins sparnaðar fyrir framleiðendur jafnt sem neytendur. Samtökin telja að barátta gegn matarsóun sé þannig langtímaverkefni sem ekki verði unnið á einu bretti, heldur þurfi stöðugt að vera í gangi einhvers konar átak gegn matarsóun. Teldu samtökin því eðlilegt að tillögur þær sem koma fram í framangreindir þingsályktunartillögu verði á einhvern hátt samofnar hlutverki þess starfshóps sem þegar hefur verið skipaður og starfssvið hans þannig útvíkkað. Neytendasamtökin telja raunar æskilegt að starfshópur sem hefur með höndum jafnmikilvægt verkefni og hinn nýskipaði hópur á vegum umverfis- og auðlindaráðuneytisins starfi á grundvelli laga eða þingsályktunar.

Að endingu verður ekki komist hjá því að lýsa undrun á því að Neytendasamtökunum hafi ekki verið boðið að tilnefnda fulltrúa í starfshóp ráðuneytisins eða með öðrum hætti boðin þátttaka í þessu verkefni.

Með framangreindum athugasemdum lýsa samtökin stuðningi við framkomna þingsályktunartillögu og hvetja til samþykktar hennar.

Virðingarfyllst,
f.h. Neytendasamtakanna,
Hildigunnur Hafsteinsdóttir 

Slóðin á þingályktunartillöguna er http://www.althingi.is/altext/144/s/0021.html.