Tillaga til þingsályktunar um lyfjastefnu til ársins 2020

Miðvikudagur, 8. júní 2016

Nefndasvið Alþingis
Velferðarnefnd
Austurstræti 8 – 10.
150 Reykjavík

Reykjavík 8. júní 2016

Umsögn Neytendasamtakanna á tillögu um lyfjastefnu til ársins 2020, 678. mál.

Á síðasta þingi Neytendasamtakanna sem haldið var haustið 2014 var samþykkt að í heilbrigðismálum þurfi að leggja áherslu á heildarsýn með samstarfi stofnana og samræmingu á nýtingu fjárveitinga til heilbrigðis- og félagsmála. Kerfið þarf að vera sveigjanlegt með rými fyrir fjölbreytt úrræði á borð við hreyfiseðla og óhefðbundnar lækningar.

Neytendasamtökin fagna nýrri lyfjastefnu enda er þar margt jákvætt að finna. Að mati samtakanna er gildistími stefnunnar þó of stuttur eða til ársins 2020 enda er dagsetning stefnunnar að verða ársgömul. Neytendasamtökin gera eftirfarandi athugasemdir varðandi nýja lyfjastefnu til ársins 2020:

·        Stjórnsýsla lyfjamála er of flókin og verkaskipting stjórnsýslustofnana óskýr og ógegnsæ. Fjórir aðilar fara með framkvæmd stjórnsýslu lyfjamála, velferðarráðuneytið, Lyfjastofnun, Embætti landlæknis og Sjúkratryggingar Íslands. Fram kemur í stefnunni þörf á að endurskoða verkaskiptingu milli aðila til að tryggja skilvirkt samstarf þessara stofnana hvað varðar upplýsingar um lyf og lyfjanotkun. Neytendasamtökin styðja að skipulag lyfjamála verði endurskoðað og hvetja stjórnvöld til þess að fækka stjórnsýslustofnunum sem sjá um lyfjamál enn frekar.

·        „Aðgengi að nauðsynlegum lyfjum verði eins greitt og kostur er og umsýslu haldið í lágmarki við útvegun lyfja, þó þannig að öryggis sé gætt og framkvæmdin í samræmi við reglur EES.“  Í þessu sambandi hvetja Neytendasamtökin stjórnvöld til tengja íslenska lyfjamarkaðinn við stærri markað enda er sá íslenski mjög smár sem leiðir af sér litla samkeppni og hærra lyfjaverð. Í skýrslu frá Ríkisendurskoðun frá árinu 2011 kemur fram lítið aðgengi að lyfjum á Íslandi m.v. hin Norrænu löndin. Þetta er óviðunandi að mati samtakanna og því hvetja samtökin stjórnvöld að tengja íslenska lyfjamarkaðinn við stærri markað til að auka aðgengi að fleiri lyfjum.

·        Neytendasamtökin fögnuðu frelsi í lyfjamálum á sínum tíma. Hins vegar hefur framkvæmdin orðið með þeim hætti að fyrirtækjum á lyfjamarkaði og í smásölu lyfja hefur fækkað mikið og á sama tíma hefur kostnaður vegna lyfja aukist, bæði hjá ríkisvaldinu og almenningi. Neytendasamtökin telja að stjórnvöld verði að bregðast við þessari samþjöppun á markaði og grípa til aðgerða til að auka samkeppni milli aðila. Í stefnunni er á einum stað vikið að aðgerðum til að auka samkeppni  með því að opna markaðinn og auka samstarf við Norðurlönd. Til viðbótar er nefnt að útboð lyfja verði styrkt og bætt og leitast eftir megni við að halda sameiginleg útboð með öðrum Norðurlöndum. Neytendasamtökin styðja þessa viðleitni.

·        Neytendasamtökin fagna tilkomu nýs greiðsluþátttökukerfi lyfja sem var tekið í notkun árið 2013. Það kerfi er réttlátara en eldra kerfi. Neytendasamtökin leggja þó til að greiðsluþrep og -þök almennings verði lækkuð og að kerfið nái einnig til fleiri þátta s.s. sýklalyfja fyrir fullorðna og hjálpartækja vegna lyfjatöku.

·        Neytendasamtökin hvetja stjórnvöld eindregið til að afnema virðisaukaskatt á lyfjum, en til vara að setja lyf í lægra skattþrep. Í stefnunni er þetta nefnt en með þeim fyrirvara að kannað verði hvort lækkun virðisaukaskatts á lyf muni skila sér til notenda. Það á ekki að vera erfitt að tryggja að slík lækkun skili sér í ljósi þess að um lyfjamarkaðinn gilda mjög stífar reglur um verð og verðlagningu og stofnanir sinna öflugu eftirliti (Lyfjastofnun og SÍ).

·        Neytendasamtökin setja spurningamerki við þann texta í stefnunni undir lið 1.F að unnið skuli með hagsmunaraðilum við að halda verðlagi lyfja innan „hóflegra“ marka í samræmi við nágrannalöndin. Samtökin telja eðlilegt að þetta samráð nái einnig til sjúklingasamtaka og / eða Neytendasamtakanna.

·        Í lið 2.b er rætt um nauðsyn þess að auka samvinnu milli aðila um að bæta rafræna umsýslu lyfja. Neytendasamtökin vara við því að útvista gagnagrunna og rafræna umsýslu lyfjamála þar sem samtökin óttast að það muni leiða til minni öryggis persónulegra gagna vegna lyfja en er í núverandi kerfi.

·        Svo virðist sem aðgerð stjórnvalda að halda aftur af lyfjakostnaði hafi tekist ágætlega, sérstaklega með því að „skilyrða greiðsluþátttöku“ í ákveðnum lyfjaflokkum. Sú aðgerð hefur leitt af sér mikla verðlækkun, meiri samkeppni og fjölgunar ódýrari samheitalyfja. Neytendasamtökin hvetja  stjórnvöld til að taka upp „skilyrta greiðsluþátttöku“ í fleiri lyfjaflokkum.

·        Neytendasamtökin hvetja stjórnvöld til að lækka tilkostnað við dýr lyf með því að breyta lögum um opinber innkaup þannig að innlendum aðilum verði gert kleift að taka þátt í sameiginlegum útboðum og innkaupum á lyfjum með öðrum löndum t.d. Noregi.

·        Neytendasamtökin hvetja stjórnvöld og lyfjafyrirtæki að tryggja jafnt aðgengi að lyfjum, t.d. með því að þrengja reglur um afskráningu lyfja.

·        Neytendasamtökin hvetja stjórnvöld að gefa almenningi möguleika á að nálgast eigin ávísanir á lyfjum í lyfjagagnagrunni Landlæknis.

 

Virðingarfyllst
f.h. Neytendasamtakanna
Jóhannes Gunnarsson formaður

Hlekkur á þingsályktunartillöguna: http://www.althingi.is/altext/145/s/1106.html.