Tillaga til þingsályktunar um mótun viðskiptastefnu Íslands

Þriðjudagur, 28. október 2014

Nefndasvið Alþingis
Efnahags- og viðskiptanefnd
Austurstræti 8 – 10
150 Reykjavík

Reykjavík, 28. október 2014

Umsögn Neytendasamtakanna um tillögu til þingsályktunar um mótun viðskiptastefnu Íslands, 23. mál.

Í framangreindri tillögu er lagt til að ráðherra verði falið að móta viðskiptastefnu sem hafi það að markmiði að jafna samkeppnisstöðu innlendrar verslunar gagnvart erlendri og lækka vöruverð til hagsbóta fyrir neytendur. Í greinargerð með tillögunni er tekið fram að liður í að ná þeim markmiðum sé að endurskoða fyrirkomulag skattamála og jafnframt er tekið undir það að mikilvægt sé að fjölga fríverslunarsamningum.

Þar sem tillagan felur í raun ekki í sér efnislegar hugmyndir varðandi það hvernig umrædd viðskiptastefna skuli úr garði gerð er örðugt að gera athugasemdir við einstök atriði sem hugsanlega munu koma til skoðunar við mótun umræddrar stefnu. Áskilja samtökin sér því fullan rétt til að koma frekari athugasemdum á framfæri þegar, og ef, umrædd viðskiptastefna lítur dagsins ljós. Allt að einu telja samtökin þó rétt að ítreka hér stefnu sína þegar kemur að vörukaupum erlendis frá.

Í umræddri tillögu virðist sem hvað mest áhersla sé lögð á fatakaup landsmanna, og taka Neytendasamtökin heils hugar undir það að mikilvægt sé að íslensk verslun búi við sömu aðstæður og verslun í nágrannalöndum og hafi þar með forsendur til selja vörur á sambærilegu verði og gert er þar. Nú er fyrirhugað að vörugjöld verði afnumin um næstu áramót og hlýtur næsta skref vera að lækka og afnema sem flesta tolla, þar á meðal á fatnaði og landbúnaðarvörum.

Neytendasamtökin telja rétt að minna á skýrslu starfshóps um samkeppnisstöðu póstverslunar sem falið var að gera tillögur um lagabreytingar og aðrar ráðstafanir til að skapa póstverslun viðeigandi samkeppnisstöðu til hagsbóta fyrir neytendur og atvinnufyrirtæki. Mikilvægt er að hafa skýrsluna til hliðsjónar við mótun viðskiptastefnu Íslands. Meðal þess sem starfshópurinn lagði til var að erlendum fyrirtækjum, sem selja vörur og senda til landsins, verði heimilt að innheimta og skila virðisaukaskatti og aðflutningsgjöldum af þeim vörum sem seldar eru til landsins en þannig spari neytendur sér greiðslu umsýslukostnaðar, þar sem verð vörunnar og öll gjöld væru þá innheimt í einu lagi. Einnig var lagt til að aðflutningsgjöld af verðlitlum sendingum yrðu felld niður. Að mati samtakanna eykur verslun á netinu möguleika neytenda á að finna lægra verð og meira vöruúrval og hefur þannig jákvæð áhrif á samkeppni innanlands en því miður hefur engum þeirra tillagna sem fram komu í skýrslunni verið hrint í framkvæmd. Að mati Neytendasamtakanna væri það þó afar mikilvægur liður í viðskiptastefnu að breyta reglum um póstverslun og gera hana einfaldari fyrir neytendur. Ekki síst þar sem svo virðist sem það séu forréttindi hinna efnameiri að versla erlendis, og væri þá ekki úr vegi að verslun við erlenda seljendur gegnum internetið yrði einfölduð til muna og gerð miklu hagkvæmari fyrir neytendur. 

Hins vegar er það svo að tiltölulega lítill hluti tekna landsmanna fer í fatakaup, og því virðist fráleitt að ætla að heil viðskiptastefna sé sett eingöngu vegna slíkrar verslunar. Framangreind þingsályktunartillaga virðist þó, eins og áður segir, að miklu miða við fatakaup, og jafnframt „samkeppnisstöðu innlendrar verslunar“. Sé hugmyndin að sett verði viðskiptastefna sem einvörðungu snýr að fatakaupum væri réttara að taka það skýrt fram. Samtökin hafa þó trú á að sú sé í raun ekki ætlunin heldur standi vilji flutningsmanna til að „lækka vöruverð til hagsbóta fyrir neytendur“ þegar kemur að vöruverði almennt.

Að mati Neytendasamtakanna er þannig mun mikilvægara að endurskoða tolla þegar kemur að innfluttum landbúnaðarafurðum, enda matarkaup mun stærri útgjaldaliður en fatakaup hjá flestum, ef ekki öllum, heimilum.

Að endingu er því rétt að minna á eftirfarandi áherslur sem samþykktar voru á þingi samtakanna hinn 27. september sl.:

„Uppræta þarf einokun í mjólkuriðnaði með lækkun eða afnámi tolla á innfluttar mjólkurvörur. Allir tollar á innfluttum ostum sem ekki eru framleiddir hér á landi verði þegar felldir niður. Tollar á öðrum mjólkurvörum verði þegar lækkaðir verulega og síðar afnumdir.

Koma þarf í veg fyrir fákeppni í framleiðslu á eggjum og kjúklinga- og svínakjöti m.a. með auknum innflutningi á þessum vörum á lágum eða engum tollum.“

Með ofangreindum athugasemdum styðja Neytendasamtökin ofangreinda tillögu og hvetja eindregið til samþykktar hennar.

Virðingarfyllst,
f.h. Neytendasamtakanna,
Jóhannes Gunnarsson, formaður

Slóðin á frumvarpið er http://www.althingi.is/altext/144/s/0023.html.