Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu samnings Íslands og ESB um viðskipti með landbúnaðarvörur

Miðvikudagur, 17. ágúst 2016

Nefndasvið Alþingis
Utanríkismálanefnd
Austurstræti 8 – 10.
150 Reykjavík

Reykjavík 17. ágúst 2016

Efni: Umsögn um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu samnings Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur, 783. mál

Neytendasamtökin líta á samning Íslands og ESB um gagnkvæma niðurfellingu og lækkun tolla á landbúnaðarvörum sem jákvætt skref í rétta átt en telja þó að ganga hefði mátt töluvert lengra í samningnum. Það er mat samtakanna að samningurinn muni leiða til fjölbreyttara vöruúrvals og aukinnar samkeppni, til hagsbóta fyrir neytendur. Þá hafa Neytendasamtökin ítrekað gert athugasemd við það fyrirkomulag að innflytjendur bjóði í það takmarkaða magn landbúnaðarvara sem heimilt er að flytja inn. Þannig hafa samtökin gert athugasemdir um að þetta leiði aðeins til hærra verðs til neytenda, enda fer slíkur kostnaður út í verðlagið. Því hafa Neytendasamtökin kallað á annað fyrirkomulag varðandi úthlutun á tollkvótum og ávallt komist að þeirri niðurstöðu að heppilegast sé að gera það með hlutkesti.

Neytendasamtökin leggja áherslu á eftirfarandi þætti:

·         Landssamtök sláturleyfishafa og Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði fóru þess á leit við stjórnvöld árið 2011 að þau beittu sér fyrir samningum við ESB um stærri tollfrjálsan útflutningskvóta fyrir lambakjöt og skyr á markaði sambandsins. Í júní sama ár óskaði Svínaræktarfélag Íslands eftir því við landbúnaðarráðherra að félaginu yrði tryggður útflutningskvóti til ESB, sbr. tillögur félagsins á Búnaðarþingi 2011. Í júní 2013 lýstu einstakir alifuglaræktendur því yfir á fundi með ráðherra að ef samið yrði um stækkun á kvótum fyrir kjúkling væri nauðsynlegt að huga að gagnkvæmni. Í viðræðum stjórnvalda við ofangreinda hagsmunaaðila var þeim frá upphafi gert ljóst að ef til nýrra samninga við ESB kæmi mætti gefa sér að Ísland yrði að gefa ívilnanir á móti. Þá eru í samningnum ekki felldir niður tollar á þeim vörum sem teljast viðkvæmar í íslenskum landbúnaði, þ.e. kjöti og mjólkurafurðum, heldur eru ívilnanir í þeim tilvikum veittar í formi tollfrjálsra kvóta. Neytendasamtökin hefðu viljað sjá niðurfellingu tolla á fleiri vörum frekar en tollfrjálsa kvóta, í samningnum, þar sem kjarabætur á grundvelli niðurfellinga tolla skila sér mun frekar til neytenda en þegar um tollfrjálsa kvóta er að ræða.  Þá er vert að benda á að nú þegar er flutt inn til landsins nauta-, svína,- og alifuglakjöt þannig að verðþrýstingur vegna innflutnings þeirra vara er þegar kominn fram að töluverðu leyti. Þá var hvorki samið um innflutning á lambakjöti né eggjum. Aukinn ostakvóti inn til landsins gæti mögulega tekið hluta markaðsaðildar af innlendum ostum, en það gæti reyndar einungis gerst ef markaðurinn stendur í stað. En á því verða að teljast litlar líkur í ljósi fólksfjölgunar og stóraukins straums ferðamanna til landsins. Í ljósi ofangreinds kemur hin afar neikvæða afstaða Félags kjúklingabænda, Svínaræktarfélags Íslands, SAM o.fl. til samningsins samtökunum á óvart sérstaklega þegar litið er til þess að ráðist var í gerð samningsins að þeirra eigin ósk.

·         Neytendasamtökin telja að ganga hefði mátt lengra en gert er með samningnum með því að fella niður alla tolla á landbúnaðarframleiðslu sem ekki á sér stað hér á landi eins og t.d. osta sem unnir eru úr geitamjólk. Þetta á ekki síst við í ljósi þess hve langur tími hefur liðið á milli endurskoðunar samninga.

·         Samningurinn er að mati Neytendasamtakanna til þess fallinn að auka samkeppni og lækka verð til neytenda, en sérstaklega á þetta við um vörur í þeim tollskrárnúmerum þar sem tollar falla niður, þ.e. unnar landbúnaðarvörur eins og t.d. franskar kartöflur, pasta, ís, pizzur, kex og súkkulaði. Töluvert meiri vafi leikur á um það hvort nokkur lækkun skili sér til neytenda varðandi þær vörur sem háðar eru tollkvótum.

·         Samningurinn tekur ekki á ýmsum algengum landbúnaðarvörum og þar af leiðandi er háum verndartollum á þessum vörum viðhaldið; þetta á við um t.d. jógúrt, osta, kæfu, skinku og pylsur.

·         Neytendasamtökin ítreka athugasemdir sínar við það fyrirkomulag að innflytjendur bjóði í það takmarkaða magn landbúnaðarvara sem heimilt er að flytja inn. Samtökin hafa áður gert athugasemdir um að þetta leiði einungis til hærra verðs til neytenda, enda fer slíkur kostnaður út í verðlagið. Því hafa Neytendasamtökin ítrekað kallað á annað fyrirkomulag varðandi úthlutun á tollkvótum og ávallt komist að þeirri niðurstöðu að heppilegast sé að gera það með hlutkesti.

·         Þá þarf að tryggja með eftirliti að innfluttar landbúnaðarvörur uppfylli sömu kröfur og gerðar eru til innlendrar framleiðslu. Innflutningur á hráu kjöti til landsins er óheimill en heimilt er að flytja inn frosið og soðið kjöt. Campylobacter er ein algengasta orsök matarsýkinga af völdum baktería á Vesturlöndum en eins og þekkt er lifir campylobacter ekki frystingu af og þar sem ekki er heimilt að flytja inn til landsins hrátt, ófrosið kjöt er þegar komið í veg fyrir auknar sýkingar af hennar völdum hér á landi. Þá annast inn- og útflutningsskrifstofa MAST rekstur landamærastöðva og eftirlit með innflutningi dýraafurða til landsins, skv. reglugerð nr. 1044/2011. Innflutningseftirlit með dýraafurðum felst í skoðun skjala sem þurfa að fylgja vörunni, auðkenningu vörunnar, þ.e. hvort merkingar séu réttar samkvæmt meðfylgjandi skjölum og heilnæmisskoðun sem felur meðal annars í sér hitastigsmælingar, skynmat og sýnatöku til rannsókna. Neytendasamtökin telja eftirlit MAST með innflutningi dýraafurða til landsins góða leið til að tryggja að innfluttar landbúnaðarvörur uppfylli sömu kröfur og gerðar eru til innlendrar framleiðslu. Ekki er hægt að sjá að fæðu- og matvælaöryggi landsins verði ógnað þó samningurinn verði staðfestur. Í samningnum er um að ræða innflutning tiltölulega lítils magns á landbúnaðarafurðum sem koma inn á markað á fjögurra ára tímabili.

·         Nýlega var Vistspor Íslands mælt. Niðurstöður mælingarinnar leiddu í ljós að með því að leggja vísinn óbreyttan á Ísland fékk það langstærsta Vistspor jarðar eða 56 jarðhektara á mann. Talan er þó töluvert of há þar sem ekki er tekið tillit til sérstakra aðstæðna landsins í orkumálum og sjávarútvegi. Þrátt fyrir það virðist allt benda til þess að Íslendingar séu neyslufrekasta þjóð jarðar miðað við þær niðurstöður sem fást með aðferðum Vistsporsins. Neytendasamtökin leggja áherslu á að upplýsa þurfi neytendur í stórauknum mæli um mikilvægi sjálfbærrar neyslu; umhverfisáhrif vöru, flokkun úrgangs og sóun matvæla. Það er verkefni stjórnvalda að hafa forystu um stóraukna fræðslu á þessum sviðum. Þá er það mat samtakanna að áhrif samningsins á vistspor landsins séu hverfandi.

·         Stjórnvöld geta brugðist við undirboðum (e. dumping) sem fræðilega gætu komið til á grundvelli samningsins með álagningu verndartolla sem ætlað er að hamla innflutningi á vörum til landsins ef um er að ræða undirboð sem sannað þykir að geti stofnað innlendum atvinnurekstri í hættu. Með undirboðum er átt við það þegar vara er seld undir kostnaðarverði. Heimild til beitingar undirboðstolla er byggð á samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um undirboðstolla. Bæði Ísland og ESB eru aðilar að samningnum og hafa skuldbundið sig til þess að beita undirboðstollum í samræmi við hann.

·         Þeir tollkvótar sem samningurinn tekur til gætu mögulega leitt til verðþrýstings á einstakar vörur. Nú þegar er þó flutt inn töluvert af þeim vörum sem tollkvótar samningsins ná til og er verðþrýstingur varðandi þær vörur væntanlega þegar kominn fram. Varðandi lækkun og afnám innflutningstolla af fullunnum vörum sem eru framleiddar úr landbúnaðarhráefnum, eins og t.d. súkkulaði og bökunarvörum, benda samtökin á að fjármálaráðherra hefur heimild til að fella niður tolla af hráefni til iðnaðarframleiðslu. Þá er fólksfjölgun á landinu nokkur og ferðamönnum sem til landsins koma fjölgar stöðugt sem leiðir til aukinnar neyslu. Á þessum grundvelli er vandséð hvernig kaupendastyrkur á grundvelli samningsins gæti leitt til þess að störf flytjist úr landi. 

Að öllu ofangreindu meðteknu styðja Neytendasamtökin að þingsályktunartillaga um staðfestingu samnings Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur, verði samþykkt.

Virðingarfyllst,
f.h. Neytendasamtakanna,
Jóhannes Gunnarsson, formaður

Hlekkurinn á þingsályktunartillöguna er: http://www.althingi.is/altext/145/s/1338.html.