Tillaga til þingsályktunar um umferðarljósamerkingar á matvæli

Fimmtudagur, 27. nóvember 2014

Nefndasvið Alþingis
Allsherjar- og menntamálanefnd
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík 27. nóvember 2014

Umsögn Neytendasamtakanna um tillögu til þingsályktunar um umferðarljósamerkingar á matvæli, 58. mál.

Ofangreind þingsályktunartillaga var áður flutt á 143. löggjafarþingi og er nú endurflutt með lítilsháttar breytingum. Neytendasamtökin sendu eftirfarandi umsögn um málið þann 13. febrúar 2014:

Í greinargerð með þessari tillögu kemur m.a. fram að „skiljanlegar og aðgengilegar upplýsingar um næringargildi matvæla eru afar mikilvægar fyrir neytendur og auðvelda þeim að taka upplýsta ákvörðun“. Jafnframt er vísað í norræna könnun þar sem m.a. 1.000 Íslendingar voru meðal svarenda og var niðurstaðan sú að yfirgnæfandi meirihluti kaus myndir og merki í stað texta. Það er því ljóst hvaða matvælamerkingar henta neytendum best.

Einnig kemur fram í greinargerð að Skráargatið sem nú hefur verið tekið upp hér á landi er hollustumerki, þ.e. að eingöngu hollustu vörurnar í hverjum vöruflokki má merkja með því merki. „Umferðarljósamerkingar eru ekki hollustumerki heldur merkingar um næringargildi matvæla og eru merkin notuð á allar tegundir matvæla.“

Neytendasamtökin taka undir þessi rök og greinargerðina með tillögunni í heild sinni og hvetja því eindregið til samþykktar tillögunnar. Jafnframt telja samtökin mikilvægt að verði tillagan samþykkt þá verði gert skylt að nota þessar merkingar á öll matvæli þar sem líklegt er að framleiðendur á óhollum vörum myndu ella ekki merkja vörur sínar með umferðarljósmerkingum.“

Neytendasamtökin taka undir þau sjónarmið sem koma fram í þingsályktunartillögunni um að það eitt að vara sé merkt með Skráargatinu eigi ekki sjálfkrafa að útiloka aðrar merkingar. Rétt er að árétta sem fram kemur í fyrri umsögn Neytendasamtakanna frá 13. febrúar 2014 þar sem bent var á að Skráargatið sé hollustumerki, þ.e. að eingöngu þær vörur sem standast vissar kröfur megi bera merkið. Umferðarljósamerkingar eru ekki hollustumerki heldur merkingar um næringargildi matvæla og eru merkin notuð á allar tegundir af matvælum. Einnig geta umferðarljósamerkingar gert neytendum auðveldara um vik að takmarka neyslu á matvælum sem innihalda mikið magn af einhverjum þeim flokkum sem umferðarljósamerkingar taka til kjósi þeir svo. Umferðarljósamerkingar hljóta því að vera góð leið til að auðvelda neytendum að taka upplýsta ákvörðun um kaup á matvælum.

Á þingi Neytendasamtakanna þann 27. september sl. var samþykkt svohljóðandi ályktun, „Mikilvægt er að tryggja einfaldar næringarmerkingar á umbúðum matvæla. Notkun á umferðarljósamerkingum er vænlegasti kosturinn og er þar miðað við breska fyrirmynd. Þar þýðir grænt einfaldlega holt en rautt óhollt.“ Neytendasamtökin taka því undir tillöguna í heild sinni og hvetja eindregið til samþykktar hennar. Þar sem umferðarljósamerkingar geta gefið til kynna að vara sé óholl þá er hætt við að framleiðendur þeirra vara séu tregir til að samþykkja notkun merkingarinnar. Í ljósi þess er mjög mikilvægt að árétta sem kom fram í umsögn samtakanna þann 13. febrúar sl. að valfrjáls notkun á merkinu er varhugaverð.

Virðingarfyllst,
f.h. Neytendasamtakanna
Jóhannes Gunnarsson, formaður

Slóðin á þingsályktunartillöguna er http://www.althingi.is/altext/144/s/0058.html.