Tillaga til þingsályktunar um útreikning nýrra neysluviðmiða fyrir íslensk heimili

Þriðjudagur, 28. október 2014

Nefndasvið Alþingis
Velferðarnefnd
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 28. október 2014

Umsögn um tillögu til þingsályktunar um útreikning nýrra neysluviðmiða fyrir íslensk heimili, 18. mál.

Neytendasamtökin taka heils hugar undir það sem fram kemur í greinargerð með tillögu þessari um að ýmsir fastir útgjaldaliðir hafi hækkað mikið undanfarin ár. Þá stefnir í enn frekari hækkanir fyrir íslensk heimili verði virðisaukaskattur á matvæli og húshitun hækkaður eins og lagt hefur verið til. Því taka samtökin undir þá afstöðu að nauðsynlegt sé að sníða vankanta af núverandi neysluviðmiðum enda mikilvægt að neysluviðmið séu eins raunhæf og kostur er. Jafnframt þarf að uppfæra viðmiðin reglulega og telja Neytendasamtökin ekki nægilegt að það sé gert einu sinni á ári eins og verið hefur. Neytendasamtökin telja þó að núverandi neysluviðmið standi að ýmsu leyti fyrir sínu, og þannig virðast „dæmigerð viðmið“ gefa nokkuð raunhæfa mynd þegar kemur að neyslu fjölskyldna, a.m.k. á sumum sviðum. Hins vegar er það mat samtakanna, eins og síðar verður vikið að, að nauðsynlegt sé að skoða tilgang neysluviðmiða og til hvers þau skuli nýtast, en t.a.m. var ekki miðað við umrædd neysluviðmið í útreikningum fjármála- og efnahagsráðuneytisins um mat á áhrifum virðisaukaskattshækkunar á matvælum.

Um húsnæðiskostnað:

Í ofangreindri tillögu er gert ráð fyrir að húsnæðiskostnaður komi fram í nýjum viðmiðum og að inn í þau „verði settir allir þættir sem snúa að húsnæðiskostnaði.“ Rétt er að minna á að upphaflega var húsnæðiskostnaður inni í neysluviðmiðum velferðarráðuneytisins og var samkvæmt skýrslu um íslensk neysluviðmið ætlað að vera „gróf nálgun.“ Þær tölur sem miðað var við sættu hins vegar þó nokkurri gagnrýni, m.a. af hálfu Neytendasamtakanna, og sér í lagi kostnaður vegna húsaleigu þótti alltof lágur. Var því tekin sú ákvörðun að fjarlægja húsnæðiskostnað úr neysluviðmiðunum og er því ekki tekið tillit til hans í dag. Eigi að setja húsnæðiskostnað aftur inn í neysluviðmið þarf því virkilega að vanda til verka og horfa til þeirra þátta sem urðu þess valdandi að fyrri tölur um húsnæðiskostnað þóttu ekki raunhæfar.

Hvað varðar leiguhúsnæði ætti að vera hægt að setja upp raunhæfar tölur hvað varðar leiguverð, og byggja þá m.a. á tölum Þjóðskrár Íslands sem unnar eru úr þinglýstum leigusamningum. Rétt er þó að taka fram að það er mat Neytendasamtakanna að þær tölur segi ekki alla söguna, þar sem aðeins hluta leigusamninga er þinglýst auk þess sem eitthvað mun um að hluti leiguupphæðar sé greiddur „undir borðið“ og því komi ekki öll leigufjárhæðin fram í þinglýstum samningum. Því þyrfti að vanda vel til verka, horfa jafnframt til auglýsts leiguverðs og uppfæra viðmið vegna húsaleigu reglulega. Þá þarf einnig að horfa til þess að leiguverð getur verið afar mismunandi, ekki aðeins eftir landshlutum, heldur einnig eftir póstnúmerum á höfuðborgarsvæðinu. Að mati Neytendasamtakanna væri því ærin vinna að setja upp raunhæf viðmið hvað varðar húsaleigukostnað, en ef vel tekst til er það þó væntanlega vel þess virði.

Hvað varðar kostnað vegna eigin húsnæðis virðist hins vegar illmögulegt að setja hann inn í neysluviðmið án ákveðinna upplýsinga frá einstaklingunum sjálfum. Þannig er fjármögnun eigin húsnæðis með ýmsum hætti og kostnaður fer eðli máls samkvæmt eftir mörgum þáttum, eins og veðhlutfalli, lánstíma og kjörum. Jafnframt má telja að húsnæðiskostnaður og veðhlutfall séu afar breytilegar stærðir eftir aldri húseigenda. Þannig telja Neytendasamtökin það hæpið að hægt sé að setja upp einsleitt viðmið er taki til húsnæðiskostnaðar vegna eigin húsnæðis. Í greinargerð með tillögunni er tekið fram að þurfi að „setja inn mismunandi dæmi eftir því um hvaða búsetuform er að ræða, staðsetningu húsnæðis og aðra þætti er skipta máli“. Að mati Neytendasamtakanna er ekki nægilegt að setja hér upp dæmi heldur þyrftu einstaklingar beinlínis að fylla út upplýsingar um höfuðstól, lánstíma, vexti og verðtryggingu sé hún til staðar, svo um raunhæfar tölur verði að ræða sé meiningin að neysluviðmiðin séu sniðin að aðstæðum og raunneyslu hvers og eins þannig að viðmiðin nýtist „til hliðsjónar við áætlun eigin útgjalda.“ Sé á hinn bóginn mögulegt að setja upp raunhæfar tölur um húsnæðiskostnað, en eins og áður segir þarf að vinna það verkefni af kostgæfni, yrði þó til mikils að vinna.

Tilgangur neysluviðmiða:

Það hefur um árabil verið baráttumál Neytendasamtakanna að sett verði raunhæf neysluviðmið. Þau geta bæði verið mikilvægt hjálpargagn einstaklinga og fjölskyldna við að skipuleggja neyslu sína og útgjöld en ekki síður er mikilvægt að stuðst sé við raunhæf neysluviðmið við greiðslumat í tengslum við lántöku.

Að mati Neytendasamtakanna er óhjákvæmilegt að líta til þess að opinber nýting núverandi neysluviðmiða hefur verið afar takmörkuð. Þannig er ekki notast við þau við ákvörðun t.a.m. lágmarkslauna, ellilífeyris eða örorku- og atvinnuleysisbóta. Þá var, eins og áður sagði, ekki notast við þau í útreikningum fjármála- og efnahagsráðuneytinu við mat á áhrifum breytinga á virðisaukaskattkerfinu. Í reglugerð um greiðslumat er svo aðeins stuðst við viðmiðin að takmörkuðu leyti en þar segir m.a. í 8. gr.: Við útreikning á kostnaði við framfærslu lántaka skal að lágmarki miða við grunnviðmið í íslenskum neysluviðmiðum eins og þau eru birt á vefsíðu velferðarráðuneytisins á hverjum tíma … Ef lántaki telur að útgefin neysluviðmið … gefi ekki rétta mynd af útgjöldum hans þá er lánveitanda heimilt að miða útgjöld við rauntölur. Óheimilt er að miða rauntölur um neyslu lántaka við lægri fjárhæð en sem nemur 75% af neysluviðmiði skv. 1. mgr. á hverjum tíma.

Það er því álit Neytendasamtakanna að samhliða því að leggja í kostnað og vinnu við gerð nýrra neysluviðmiða þurfi stjórnvöld að móta sér stefnu varðandi nýtingu neysluviðmiða og skoða hvort ekki sé eðlilegt að miða við þau þegar t.a.m. bótafjárhæðir eru ákvarðaðar.

Með ofangreindum athugasemdum styðja Neytendasamtökin framangreinda tillögu og hvetja til samþykktar hennar.

Virðingarfyllst,
f.h. Neytendasamtakanna,
Hildigunnur Hafsteinsdóttir

Slóðin á frumvarpið er http://www.althingi.is/altext/144/s/0018.html.