Umsögn um breytingu á gjaldskrá Íslandspósts

Þriðjudagur, 6. júlí 2010

 

Póst- og fjarskiptastofnun
Suðurlandsbraut 4 2.h.
108 Reykjavík

Reykjavík 6. júlí 2010

Efni: Fyrirhugaðar breytingar á verðskrá Íslandspósts

Neytendasamtökin hafa fjallað um fyrirhugaðar breytingar á verðskrá fyrir almennan póst. Neytendasamtökin gera athugasemd við mikla hækkun sem fyrirhuguð er á sendingu á 60 g bréfum. Samkvæmt hugmyndum Íslandspósts stendur til að hækka burðargjaldið úr 75 krónum í 105 krónur eða um 40%. Í staðinn ætlar Íslandspóstur að bjóða magnpóst fyrir 500 bréf eða fleiri, þar sem burðargjaldið verður 60 krónur.

Það er ljóst að almennur póstur nýtist neytendum best og ólíklegt er að magnpóstur muni gagnast þeim nema í einstaka tilfellum. Telja því Neytendasamtökin út í hött að samþykkt verði svo mikil hækkun á almennum pósti.

Samkvæmt rökum Íslandspósts er markmiðið með endurskoðun á vöruframboði og verðskrá, að verð endurspegli raunverulegan kostnað. Það er krafa Neytenda-samtakanna að neytendum verði alla vega boðinn ódýrari valkostur en fyrirhugað er t.d. með lengri dreifingartíma eins og 5 virkir dagar frá póstlagningu, án þess að um magnpóst sé að ræða.
Virðingarfyllst
f.h. Neytendasamtakanna
Jóhannes Gunnarsson
formaður Neytendasamtakanna

Sjá nánar á heimasíðu Póst- og fjarskiptastofnunar