Umsögn um drög að leiðbeinandi reglum fyrir lögmenn um endurgjald vegna kostnaðar af löginnheimtu peningakröfu

mánudagur, 22. apríl 2013

 

Innanríkisráðuneytið
Sölvhólsgötu 7
150 Reykjavík

 

Reykjavík, 22. apríl 2013

 

Umsögn Neytendasamtakanna um drög að leiðbeinandi reglum fyrir lögmenn um endurgjald sem þeim er hæfilegt að áskilja umbjóðendum sínum úr hendi skuldara vegna kostnaðar af löginnheimtu peningakröfu.

Það sem af er ári hafa Neytendasamtökin fengið um fimmtíu erindi frá neytendum vegna innheimtukostnaðar. Nær undantekningalaust er þar um að ræða erindi sem varða innheimtukostnað vegna löginnheimtu. Það veldur miklum misskilningi hjá neytendum, sem alla jafna standa í þeirri trú að innheimtulög nr. 95/2008 hafi sett skorður við öllum innheimtukostnaði, að í raun sé frjálst að leggja hvaða kostnað sem er á kröfu sem er komin í svokallaða löginnheimtu. Þá bætir ekki úr skák að mörkin milli frum-, milli- og löginnheimtu geta verið æði óljós ekki síst í ljósi þess að oft virðist sem sömu innheimtufyrirtæki annist innheimtu á öllum stigum.

Í dag er lagaleg staða skuldara með þeim hætti að skylt er að senda eina innheimtuviðvörun (mjög margir kröfuhafar nýta sér svo heimild 3. mgr. 5. gr. reglugerðar um hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar o.fl. nr. 37/2009 og sameina greiðsluseðil og innheimtuviðvörun, þannig að viðvörunin kemur aðeins fram í litlu letri á greiðsluseðli. Í þeim tilvikum kannast neytendur sjaldnast við að hafa yfirleitt fengið innheimtuviðvörun) en eftir það er í raun heimilt að senda kröfu í svokallaða löginnheimtu, en ekki er skylt að senda milliinnheimtubréf.

Í slíkum tilvikum, þar sem neytendur kannast jafnvel ekki við að hafa fengið innheimtuviðvörun, er svo kostnaður vegna innheimtu kröfunnar mjög fljótur að safnast upp og getur hann raunar á mjög stuttum tíma orðið jafnhár höfuðstól kröfunnar.

Á grundvelli ofangreinds er það mat Neytendasamtakanna að afar mikilvægt sé að setja reglur um kostnað vegna innheimtu á öllum stigum ferlisins. Raunar teldu samtökin æskilegt að gengið yrði lengra og sett leiðbeinandi verðskrá fyrir lögmenn er nái til allra verka þeirra, en nokkuð er um að samtökin fái erindi vegna reikninga lögmanna sem neytendur telja komna úr hófi fram.

Að þessu sögðu gera samtökin þó eftirfarandi athugasemdir við 2. gr. draganna:

Í 1. mgr. segir að hæfilegt endurgjald af fjárhæð kröfu sé grunngjald, 6.000 kr. að viðbættum 25% af fyrstu 50.000 kr. Þetta hefur í för með sér að aðili sem skuldar 50.000 kr., þarf að greiða kostnað vegna innheimtuviðvörunar, að hámarki 950 kr., mögulegan kostnað vegna milliinnheimtubréfs, að hámarki kr. 3.700 kr., auk 18.500 kr. á grundvelli reglnanna. Það þýðir að innheimtukostnaður getur, á mjög skömmum tíma, numið allt að 23.150 kr., eða 46,3% upphafslegs höfuðstóls. Þetta telja Neytendasamtökin afar hátt hlutfall, og telja jafnframt nauðsynlegt, sér í lagi þegar greiðsluseðill og innheimtuviðvörun eru sameinuð, að kröfuhöfum sé gert skylt að senda a.m.k. eitt milliinnheimtubréf enda megi það mögulega verða til þess að halda kostnaði niðri.

Í 2. mgr. er kveðið á um að hæfilegt endurgjald fyrir ritun greiðsluáskorunar, aðfararbeiðni, nauðungarsölubeiðni, gjaldþrotaskiptabeiðni, kröfulýsingar, afturkallana og beiðni um vörslusviptingu, sé 6.000 kr. Þessa grein mætti að mati samtakanna setja fram með skýrari hætti, auk þess sem skýra mætti nánar hvernig samspil hennar við 1. mgr. er. Þannig er ekki ljóst hvort t.a.m. ritun greiðsluáskorunar er innifalin í gjaldi því sem hæfilegt er að innheimta skv. 1. mgr., eða hvaða vinna innheimtuaðila vegna innheimtunar sé í raun innifalin í gjaldtöku skv. 1. mgr. Ef greiða þarf sérstaklega fyrir greiðsluáskorun er kostnaður vegna 50.000 kr. skuldar mjög fljótt kominn upp í 29.150 kr., eða 58,3% af höfuðstól, sér í lagi ef ferill löginnheimtu hefst með sendingu greiðsluáskorunar.

Með ofangreindum fyrirvörum hvetja Neytendasamtökin eindregið til þess að ofangreindar reglur verði að veruleika.

Virðingarfyllst,

f.h. Neytendasamtakanna,
Jóhannes Gunnarsson, formaður