Umsögn um samgönguáætlun

Miðvikudagur, 29. febrúar 2012

 

Nefndasvið Alþingis
Umhverfis- og samgöngunefnd
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 29. febrúar 2012

Umsögn um frumvarp til laga um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2011-2014 (392. mál.) og tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2011-2022 (393. mál.).

Neytendasamtökin þakka fyrir að fá tækifæri til að gefa umsögn um ofangreindar tillögur og gera eftirfarandi athugasemdir:

Neytendasamtökin minna á að alvarlegustu slys í umferðinni eru flest á þjóðvegi 1, nánar tiltekið á svæðinu frá Borgarfirði í gegnum höfuðborgarsvæðið og til Hellu á Suðurlandi. Því hafa Neytendasamtökin lagt þunga áherslu á að fjármagni til samgönguáætlunar verði varið þannig að miðað sé við að stefnt sé að umferðarmannvirki á þessu svæði séu lagfærð þannig að umferðaröryggi verði aukið. Ef ná á markmiðum um að fjöldi alvarlegra slasaðra minnki að jafnaði um 5% á ári til ársins 2022 er nauðsynlegt að verja meira fjármagni á þessu svæði. Neytendasamtökin leggja áherslu á að unnið sé eftir þjóðhagslegri arðsemisröð þegar mótuð er samgönguáætlun.

Neytendasamtökin eru hlynnt því markmiði sem fram kemur í tillögunum um að stuðla frekar að umhverfislega sjálfbærum samgöngum og að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum samgangna. Því telja samtökin mikilvægt að almenningssamgöngur verði efldar, bæði innan og utan þéttbýlis, enda ljóst að bætt nýting almenningssamgangna felur í sér jákvæð umhverfisáhrif. Þá er brýnt að gera almenningssamgöngur að meira aðlaðandi ferðamáta en nú er þannig að aukinn fjöldi fólks nýti sér slíkar samgöngur, t.a.m. með því að bæta leiðakerfi og aðlaga það betur að eftirspurn. Þá er einnig brýnt að vinna að bættu öryggi í almenningssamgöngum, t.a.m. með því að hvetja eigendur eldri hópbifreiða til að láta setja öryggisbelti í þær bifreiðar sem ekki eru búnar slíkum nauðsynlegum öryggisbúnaði, auk þess að unnið sé að því að efla eftirlit með því að slík belti séu notuð. Þetta gildi einnig um akstur strætós t.d. á milli höfuðborgarsvæðisins annar vegar og Akraness og Selfoss hins vegar.

Þá eru samtökin hlynnt því að unnið sé að uppbyggingu hjólreiðastíga þannig að hjólreiðar verði auðveldari og þægilegri samgöngumáti. Jafnframt er afar mikilvægt að huga vel að öryggi hjólreiðafólks við slíkar framkvæmdir, t.a.m. með því að byggja mislægar hjóla- og gönguleiðir undir stofnbrautir, en ljóst er að það fylgir því töluverð slysahætta að hjóla samhliða bifreiðaumferð.

Enn fremur styðja samtökin markmið um hagkvæmar samgöngur og telja í því sambandi að rétt væri að skoða til hlítar hugsanlega hagkvæmni við eflingu vöruflutninga á sjó. Ljóst er að þungaflutningar á þjóðvegum valda margföldu sliti á vegakerfinu miðað við umferð fólksbíla, flestir þéttbýliskjarnar landsins eru svo tengdir höfnum og því telja samtökin brýnt að skoðað verði ítarlega hvort auknir sjóflutningar kunni að vera hagkvæmari en landflutningar. Innanríkisráðherra skipaði 2011 starfshóp sem skila á tillögum um hvernig standa megi að því að koma á strandsiglingum að nýju. Í tillögum þeim sem hér liggja fyrir er ekki lagt til fjármagn til að koma á strandsiglingum en Neytendasamtökin hvetja eindregið til að það verði gert. Minnt er á að með því draga úr þungaflutningum á þjóðvegum landsins er um leið verið að auka umferðaröryggi.

Neytendasamtökin hvetja til að upplýsingatækni verði nýtt sem best til að hamla gegn slysum t.d. með að stuðla að því að umferðarsnjalltækni (ITS, Intelligent Transport System) verði innleidd í bifreiðar. Einnig hvetja samtökin til þess að efldur verði tækjabúnaður til gagnasöfnunar við vegi. Mikið hagræði er fyrir almenning að geta kynnt sér upplýsingar um veður og umferð sem og myndir af aðstæðum áður en haldið er af stað.

Með fjölgun ferðamanna er mikilvægt að fjölgað sé þeim stöðum meðfram vegum þar sem hópferðabílstjórar geta stöðvað ökutæki sín og hleypt ferðamönnum út án þess að skapa hættu eða óþægindi í umferðinni.

Að endingu telja samtökin mikilvægt að unnið sé ötullega að því að ná fram markmiðum um öruggari samgöngur en nú er. Því telja samtökin afar brýnt að efla forvarnir og fræðslu, og þá bæði fræðslu til innlendra og erlendra ökumanna, en því miður hefur sýnt sig að hinir síðarnefndu lenda oft í umferðarslysum og óhöppum hér á landi. Þetta er í samræmi við tillögur starfshóps um umferðaröryggi til ársins 2012. Þá telja samtökin afar brýnt að vinnu við rannsókn á kostum og göllum þess að taka upp núllsýn verði flýtt sem kostur er og þá telja samtökin raunar að setja mætti metnaðarfyllra markmið hvað varðar fjölda slysa og dauðsfalla í umferðinni en nú má finna í c-lið kafla 1.4. í tólf ára samgönguáætlun 2011–2022.

Virðingarfyllst,
f.h. Neytendasamtakanna,
Jóhannes Gunnarsson, formaður

Slóðin á frumvarp til laga um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2011-2014 er http://www.althingi.is/altext/140/s/0533.html.

Slóðin á tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2011-2022 er http://www.althingi.is/altext/140/s/0534.html.