Umsögn um skýrslu vinnuhóps um húsnæðisstefnu Reykjavíkurborgar 2020

mánudagur, 8. ágúst 2011

Ráðhús Reykjavíkur

Tjarnargötu 11
101 Reykjavík

Reykjavík, 28. júlí 2011

Umsögn Neytendasamtakanna um skýrslu vinnuhóps um húsnæðisstefnu Reykjavíkurborgar 2020.

Neytendasamtökin þakka fyrir tækifærið til að tjá sig um framangreinda skýrslu. Jafnframt lýsa samtökin yfir áhuga á að koma með einhverjum hætti að stefnumótunarvinnu Reykjavíkurborgar í húsnæðismálum í framtíðinni og lýsa sig því reiðubúin til frekara samstarfs á þessum vettvangi verði eftir því leitað.

Flestar tillagnanna, eða tillaga 2, 4, 5, 6 og 7 miða fyrst og fremst að stuðningi við sérstaka tekjulægri hópa. Í tillögu 2 er þannig gert ráð fyrir því að Reykjavíkurborg úthluti lóðum á kostnaðarverði til félagasamtaka sem byggja íbúðir fyrir ákveðna hópa. Neytendasamtökin eru fylgjandi slíkri framkvæmd en telja jafnframt brýnt að gætt verði að því að sá sparnaður sem verður til hjá félögunum vegna þessa skili sér til leigjenda eignanna. Í tillögu 4 er svo rætt um endurskoðun og samræmingu á reglum um sérstakar húsaleigubætur. Neytendasamtökin telja afar brýnt að fallið verði með einhverjum hætti frá þeirri framkvæmd sem nú er í gildi, þ.e. að gerðar séu kröfur um ákveðna lengd búsetu til að öðlast rétt til sérstakra húsaleigubóta. Slíkar reglur minna að nokkru á gömlu hreppaflutningana og girða fyrir eðlilegt frelsi tekjulægri hópa þegar kemur að því að velja sér búsetusvæði enda ætti öllum að vera kleift að búa í því sveitarfélagi sem þeir kjósa. Jafnframt telja samtökin eðlilegt að leigjendur geti öðlast rétt til sérstakra húsaleigubóta óháð því hver á leiguhúsnæði, enda slíkt fyrirkomulag væntanlegra vænlegra til að stuðla að einhvers konar jafnræði á leigumarkaði fremur en að félagasamtökum séu veittir sérstakir styrkir til rekstrar leiguíbúða. Þá eru Neytendasamtökin sammála því markmiði sem kemur fram í tillögu 5, þ.e. að Félagsbústaðir reki áfram húsnæði fyrir þá sem ekki geti leigt á almennum markaði, en telja jafnframt brýnt að skoðað verði af hverju leiga Félagsbústaða sé jafnhá og gerist og gengur á almennum markaði þrátt fyrir sérstök lánakjör, en Neytendasamtökin fá talsvert af erindum þar sem kvartað er undan hárri leigu hjá Félagsbústöðum. Þar sem um sérstakt úrræði fyrir þá sem eiga vart annarra kosta völ er að ræða telja samtökin eðlilegt að leigukjör séu hagstæðari en á almennum markaði. Því telja samtökin jafnframt brýnt að ráðist verði í rekstrarúttekt á fyrirtækinu svo sem lagt er til í tillögu 5.

Neytendasamtökin eru því fylgjandi þeim tillögum sem fram koma og miða að því að bæta stöðu tekjulægri hópa á leigumarkaði. Jafnframt þarf þó að gera leigu að meira aðlaðandi valkosti í huga fólks, en leigumarkaður hér hefur einkennst af nokkrum óstöðugleika, sem helgast væntanlega af því að oftar en ekki er um að ræða einstaklingsmarkað, þ.e. einstaklingar leigja út eignir sínar og þá yfirleitt til skamms tíma. Þetta veldur því að leiga er t.a.m. ekki ákjósanlegur kostur fyrir barnafólk sem oftar en ekki vill stöðugleika í búsetu með tilliti til skóla og tómstunda barna sinna. Þetta hefur jafnvel leitt til þess að ungt fólk hefur farið illa út úr offjárfestingum með því að festa kaup á húsnæði sem það hefur í raun ekki efni á. Það er því að mati Neytendasamtakanna nauðsynlegt að efla hér á landi traustan langtímaleigumarkað svo sem þekkist víðast hvar í öðrum löndum. Með slíkum markaði yrði leiga raunhæfur valkostur en ekki einungis hálfgert neyðarúrræði hinna tekjuminni eins og nú virðist vera. Í þessu samhengi telja samtökin því mikilvægt að áframhaldandi útfærsla á tillögu 3 í skýrslu vinnuhópsins fari fram.

Sama markmið má svo ráða af tillögu 1 í áðurnefndri skýrslu en þar kemur fram að nauðsynlegt sé að hlutfall leiguíbúða verði hærra eða um 25% af öllu íbúðarhúsnæði enda þurfi leigu- og/eða búseturéttaríbúðir að vera fyrir alla þjóðfélagshópa og tryggja þurfi félagslegan fjölbreytileika með fjölbreyttu framboði íbúðargerða. Neytendasamtökin taka heils hugar undir þetta og telja því mikilvægt að tillögu 1 verði fylgt eftir með frekari vinnu enda fylgja búsetu í leiguíbúð ýmsir kostir og því mikilvægt að um raunhæft búsetuúrræði verði að ræða. Er því mikilvægt að við gerð aðalskipulags verði gert ráð fyrir auknu hlutfalli leiguíbúða, og þá ekki einvörðungu íbúðum sem sniðnar eru að þörfum hinna tekjulægstu.

Neytendasamtökin lýsa því ánægju sinni með þær tillögur sem fram koma í skýrslu vinnuhópsins en telja örðugt að gera ítarlegri efnislegar athugasemdir við einstakar tillögur fyrr en nánari hugmyndir að útfærslu þeirra liggja fyrir. Samtökin fara því góðfúslegast fram á að fá tækifæri til að tjá sig nánar um einstaka þætti í stefnumótun um húsnæðisstefnu Reykjavíkurborgar eftir því sem nánari hugmyndir og tillögur liggja fyrir.

Neytendasamtökin telja mikilvægt að vinnu sem byggir á tillögum starfshópsins verði haldið áfram og hraðað sem kostur er enda afar brýnt að efla leigumarkað á höfuðborgarsvæðinu.

Virðingarfyllst,
f.h. Neytendasamtakanna,
Hildigunnur Hafsteinsdóttir, lögfræðingur
Jóhannes Gunnarsson, formaður

Slóðin á skýrsluna er: