Umsögn Neytendasamtakanna um frumvarp til fjárlaga 2017

Fimmtudagur, 15. desember 2016

Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis         
Nefndasvið Alþingis                                                            
Austurstræti 8 – 10   
150 Reykjavík
                                                                                                                                                                                  Reykjavík, 15. desember 2016

 

Umsögn Neytendasamtakanna um frumvarp til laga um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2017, 2. mál

 

Neytendasamtökin gera eftirfarandi athugasemdir við ofangreint frumvarp:

Um II. kafla frumvarpsins:

Í frumvarpinu kemur fram að til standi að hækka áfengisgjald um 4.7%, sem er 2.5% umfram hækkun vísitölu neysluverðs. Það er ljóst að verði af umræddri hækkun hafa áfengisgjöld hækkað um 100% á undanförnum áratug. Það er gríðarleg hækkun, sér í lagi í ljósi þess að vísitala neysluverðs hefur hækkað um 40% á sama tímabili. Neytendasamtökin telja að álögur á áfengi hafi náð sínu hámarki og að það séu takmörk fyrir því hversu mikið sé hægt að skattleggja eina tegund vöru. Þegar litið er til annarra landa í Evrópu er ljóst að áfengisgjöld eru með hæsta  móti hér á landi og virðist ríkisvaldið taka til sín gríðarlega hátt hlutfall af útsöluverði áfengra drykkja. Þær geypilegu hækkanir sem hafa átt sér stað undanfarinn áratug koma til með að valda hækkunum á vísitölu neysluverðs sem hefur síðan sinn þátt í að auka á verðbólgu sem síðan veldur hækkunum á m.a. húsnæðislánum einstaklinga hér á landi. Það er því mat samtakanna að nóg sé komið af hækkunum á áfengisgjaldi og að falla eigi frá umræddum hækkunum.

Samtökin vilja einnig mótmæla hækkun á tóbaksgjaldi á sömu forsendum og hér að ofan, sbr. 4. gr. frumvarpsins. 
 

Um VI., VII. og IX. kafla frumvarpsins:

Í köflum VI. og VII. er m.a. lögð til hækkun á olíugjaldi, hækkun á vörugjaldi af bensíni og hækkun á sérstöku vörugjaldi af bensíni. Þannig er lagt til að almenn hækkun verði tæp 5%. Á árunum fyrir og eftir hrun hækkaði eldsneyti gríðarlega hér á landi. Þegar mest var fór verð á eldsneyti í rúmlega 250 krónur fyrir hvern keyptan lítra. Síðan þá virðist verð á eldsneyti lækkað eitthvað, drifið áfram af verðlækkunum á olíu á alþjóðamörkuðum, en þó telst það almennt frekar dýrt hér á landi miðað við önnur lönd sem við berum okkur saman við. Fyrir því virðast vera ýmsar ástæður, sér í lagi staðsetning landsins og sú staðreynd að erfiðara sé að koma eldsneyti hingað til lands en annarra landa í heimsálfunni. Þrátt fyrir það er gjaldheimta ríkisins ein af aðalástæðum þess hversu hátt eldsneytisverð er hér á landi.                 

Að mati Neytendasamtakanna er eldsneytisverð hátt hér á landi og telja samtökin fulla ástæðu til þess að stjórnvöld haldi að sér höndum þegar kemur að hækkunum, þar sem markaðurinn virðist enn vera að jafna sig eftir þær gríðarlegu hækkanir sem nefndar eru hér að ofan. Aukin skattlagning mun bitna illa á neytendum, rétt eins og þær hækkanir sem um ræðir gerðu á árunum fyrir og eftir hrun. Samtökin telja það mun eðlilegri nálgun fyrir stjórnvöld að leyfa markaðnum að jafna sig enn frekar áður en skoðað er hvort efni séu til hækkana á eldsneytisverði.   

Þar sem neytendur eru háðir því í sínu daglega amstri að versla eldsneyti verður einnig að nefna það sem var nefnt hér að ofan varðandi það hvernig hækkanir eins og þessar skila sér beint út í verðlagið, sem veldur hækkunum á vísitölu neysluverðs og hækkunum á lánum heimilanna. Þá mótmæla samtökin því einnig að til standi að hækka bifreiðagjöld, sbr. IX. kafli frumvarpsins, á sömu forsendum og nefndar hafa verið hér vegna kafla VI. og VII.       
 

Um XXIII. kafla frumvarpsins:    

Samkvæmt frumvarpinu stendur til að hækka gjaldskrá vegna útgáfu vegabréfa um 20%. Þannig mun almennt vegabréf kosta neytendur 12.300 kr. í stað 10.250 kr. Neytendasamtökin telja gjaldtöku vegna útgáfu vegabréfa vera gjaldtöku þjónustugjalds, og með hliðsjón af almennum reglum um þjónustugjöld þarf gjaldtakan að endurspegla þann raunverulega kostnað sem fellur til vegna útgáfu þeirra. Af þeim sökum telja samtökin enga forsendu til þess að hækka þjónustugjald vegna útgáfu vegabréfa um 20% vegna viðbótarframlags við Þjóðskrá Íslands, enda er starfsemi stofnunarinnar mun víðtækari en svo að hún fáist einungis við útgáfu vegabréfa og ekki verður séð að kostnaður stjórnvalda af útgáfu vegabréfa hafi hækkað um 20% að undanförnu. Telja samtökin stjórnvöld því þurfa að finna aðrar leiðir til þess að auka tekjur sínar svo hægt sé að bæta við framlag þeirra til stofnunarinnar, en þær að taka þær út á neytendum með hækkunum á gjaldtöku vegna vegabréfa.

 

Virðingarfyllst,
f.h. Neytendasamtakanna

                                                                                           
                                                                                            Ólafur Arnarson, formaður.

Hrannar Már Gunnarsson