Umsögn um drög að nýrri reglugerð um velferð alifugla

Þriðjudagur, 20. maí 2014

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið
B/t Rebekku Hilmarsdóttir
Skúlagötu 4
150 Reykjavík

Reykjavík 20. maí 2014

Efni: Umsögn um drög að nýrri reglugerð um velferð alifugla.

Neytendasamtökin fagna þeim miklu framförum sem hafa orðið á umliðnum árum innan þessara greina, enda hefur náðst gríðarlegur árangur m.a. hvað varðar sýkingar af völdum salmonellu og kapýlóbakter. Það er að mati Neytendasamtakanna afar mikilvægt að framhald verði á þessu og að þessi reglugerð tryggi að svo geti orðið, um leið og eðlileg dýraverndarsjónarmið séu tryggð.

Skv. 1. gr. í drögunum er tilgangur reglugerðarinnar „að tryggja velferð og heilbrigði allra alifugla með góðri meðferð, umhirðu og aðbúnaði. Leitast skal við að alifuglar geti lifað í samræmi við sitt eðlilega atferli eins og framast er kostur.” Þetta er í samræmi við ný lög um velferð dýra (nr. 55/2013) sem tóku gildi 1. janúar sl. en það er markmið laganna skv. 1. gr. að  „stuðla að velferð dýra, þ.e. að þau séu laus við vanlíðan, hungur og þorsta, ótta og þjáningu, sársauka, meiðsli og sjúkdóma, í ljósi þess að dýr eru skyni gæddar verur.” Ákvæði í drögunum varðandi aðbúnað uppfylla hins vegar ekki þetta markmið og tryggja ekki velferð alifugla.

Að þessu sögðu gera Neytendasamtökin eftirfarandi athugasemdir við reglugerðina:

1) Ákvæði í drögunum um þéttleika í kjúklingabúum er allt of mikil. Gert er ráð fyrir að þéttleiki megi vera allt að 39 kg/m2 á starfandi kjúklingabúum, en Matvælastofnun getur veitt undanþágu fyrir að þéttleiki sé allt að 42 kg/m2. Vísindanefnd Evrópusambandsins ályktaði þegar árið 2000 að ekki sé hægt að tryggja velferð kjúklinga ef þéttleiki er yfir 25 kg/m2. Þéttleiki yfir 30 kg/m2 hækkar tíðni alvarlegra heilsuvandamála svo sem dritbruna, húðútbrota og öndunarsjúkdóma mikið. Ef þéttleiki er yfir 25 kg/m2 sýna fuglarnir meiri streitueinkenni, eiga erfitt með að hreyfa sig og þrífa og sýna aðra eðlislægða hegðun („The welfare of chickens kept for meat production (Broilers)” (sjá nánar: http://ec.europa.eu/food/fs/sc/scah/out39_en.pdf). Til að tryggja velferð kjúklinga er þess vegna nauðsynlegt að takmarka þéttleika kjúklinga við 25 kg/m2 í reglugerðinni. Slík breyting mun jafnframt leiða til þess að gæði kjötsins verða meiri, enda er það velþekkt að streita meðal dýra leiðir til lakari afurða.

2) Í 27. gr. um „Aðbúnað í húsum fyrir kjúklinga” er að finna ákvæði um loftgæði. Hér þarf nánari skilgreiningar til að tryggja að farið sé eftir þessum ákvæðum í kjúklingabúum. Til að tryggja ásættanleg loftgæði í kjúklingahúsum þarf að setja upp mælingarkerfi sem fylgist með loftgæðum en í reglugerðina þarf að vera ákvæði um slíkar mælingar og að skylt sé að niðurstöðurnar séu skráðar. Einnig þarf nánari skilgreiningu í 22. gr. þar sem segir að „Dauða fugla skal fjarlægja daglega og drit eftir þörfum. Það þarf að koma skýrar fram hvað átt er við að drit skuli fjarlægt eftir þörfum. Þetta má ekki vera sett í mat hvers einstaks kjúklingaframleiðanda.

3) Samkvæmt drögunum verður heimilt að nota hefðbundin búr við eggjaframleiðslu fram til ársins 2023 en slík búr hafa verið bönnuð í ESB siðan 2012 vegna dýraverndarsjónarmiða. Að mati Neytendasamtakanna er um allt of langan aðlögunartíma að ræða og ber að stytta hann verulega. Takmarkið hlýtur ennfremur að vera, út frá dýraverndarsjónarmiði, að banna með öllu notkun búra fyrir varphænsni og þess í stað verði varphænsni í lausagöngu.

Virðingarfyllst
f.h. Neytendasamtakanna
Jóhannes Gunnarsson formaður