Umsögn um drög að nýrri reglugerð um velferð svína

Þriðjudagur, 3. júní 2014

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið
B/t Rebekku Hilmarsdóttur
Skúlagötu 4
150 Reykjavík

Reykjavík 3. júní 2014
 
Umsögn: Drög að reglugerð um meðferð svína.
 
Neytendasamtökin fagna þessum drögum og telja að margt sé þar til bóta. Samtökin telja mikilvægt, til að tryggja skilvirka vinnu eftirlitsaðila, að reglugerðin sé jafn ítarleg og raun ber vitni.

Neytendasamtökin fagna því að svín fái með reglugerðinni notið lausagöngu í vaxandi mæli. Það er mat samtakanna að neytendur geri vaxandi kröfur um aðbúnað dýra og margir vilja geta valið vörur frá þeim framleiðendum sem skapa sér sérstöðu hvað varðar velferð dýranna. Því telja Neytendasamtökin að ráðuneytið eigi að beita sér fyrir því, í samstarfi við viðeigandi stofnanir og hagsmunaaðila, að hægt verði að votta á viðurkenndan hátt ef framleiðandi vill ganga lengra í dýravernd en kveðið er á um í reglugerðinni, t.d. hvað varðar útivist og/eða meira rými í stíum svína. Þetta mætti einnig hafa í huga varðandi reglugerð um velferð alifugla og raunar einnig aðrar dýrategundir.

Virðingarfyllst
f.h. Neytendasamtakanna
Jóhannes Gunnarsson formaður