Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á virðisaukaskatti, vörugjaldi og fleira

mánudagur, 13. október 2014

Nefndasvið Alþingis
Efnahags- og viðskiptanefnd
Austurstræti 8 – 10
150 Reykjavík

Reykjavík, 13. október 2014.

Athugasemdir Neytendasamtakanna við frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, brottfall laga nr. 97/1987, um vörugjald, og breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum (kerfisbreyting á virðisaukaskatti, brottfall laga og hækkun barnabóta), 2. mál.

Neytendasamtökin gera eftirfarandi athugasemdir við ofangreint frumvarp:

Um I. Kafla: Hinn 15. september sl. sendu Neytendasamtökin frá sér eftirfarandi ályktun vegna fyrirhugaðra breytinga á virðisaukaskattskerfinu:

„Fram kemur í fjárlagafrumvarpi næsta árs að virðisaukaskattur á matvæli verði hækkaður úr 7% í 12%. Fram hefur komið að tekjulægstu heimilin verja 17,6% ráðstöfunartekna sinna í matar- og drykkjarvörur, á móti 10,7% hjá tekjuhæstu heimilunum. Neytendasamtökin mótmæla þessum áformum harðlega enda ljóst að þetta kemur verst niður á tekjulægri heimili.

Stjórnvöld halda því fram að þetta sé til einföldunar á skattakerfinu. Ekki er hægt að fallast á þau rök enda verða áfram tvö virðisaukaskattsþrep, þó svo að annað hækki um 5 prósentustig en hitt lækki um 1,5 prósentustig.

Minnt er á að það voru einmitt sömu flokkar í ríkisstjórn þegar ákveðið var að lækka virðisaukaskatt á matvörur úr 14% í 7%. Neytendasamtökin studdu eindregið þá aðgerð og hljóta því að spyrja hvað hafi breyst síðan þá.

Það ber að taka fram að Neytendasamtökin styðja hugmyndir um að leggja vörugjald niður enda er það til þess fallið að einfalda skattakerfið, en vörugjaldskerfið er mjög flókið. Auk þess er það oftar en ekki lagt á vörur sem eru nauðsynlegar heimilunum. Einnig er minnt á að þessar sömu vörur eru í hærra virðisaukaskattsþrepinu og því eru opinberar álögur á þessar vörur mjög miklar. Niðurfelling vörugjalda og lækkun hærra virðisaukaskattsþrepsins vegur þó að mati Neytendasamtakanna ekki upp á móti mikilli hækkun virðisaukaskatts á matvæli.

Neytendasamtökin gera ráð fyrir að hækkun á matarskatti komi fram í verðlagi um leið og hún tekur gildi og hafi þar með umtalsverð áhrif á verðtryggingu húsnæðislána. En samtökin hafa áhyggjur af því að lækkanir í efra þrepi virðisaukaskatts og niðurfelling vörugjalda muni ekki skila sér til neytenda í sama mæli, enda hafa dæmin sýnt að slíkar lækkanir skila sér í mörgum tilvikum illa  til neytenda, nema því aðeins að  stjórnvöld komi á fót sérstöku eftirliti til að fylgjast með að lækkanir skili sér í verðlagi. Gera Neytendasamtökin því þá kröfu, verði þessar tillögur að veruleika, að því verði sérstaklega fylgt eftir, að umræddar lækkanir skili sér til neytenda.“

Neytendasamtökin ítreka þessa afstöðu sína og lýsa sig því andvíg áformum um hækkun neðra þreps virðisaukaskatts úr 7 í 12%. 

Um II. Kafla: Neytendasamtökin lýsa sig samþykk áformum um niðurfellingu laga um vörugjald nr. 97/1987, en ítreka þó áhyggjur sínar af því að sú niðurfelling, auk lækkunar á efra virðisaukaskattstigi, komi ekki til með að skila sér til neytenda.

Raunar fá samtökin nú þegar margar ábendingar þess efnis að seljendur hafi hækkað verð á t.a.m. raftækjum og gosdrykkjum, og má gera því skóna að það sé í þeim tilgangi að gera verðlækkun vegna afnáms vörugjalda léttbærari. Þá er þess skemmst að minnast að í sumar, í kjölfar lækkunar á m.a. tóbaksgjöldum, gerðu Neytendasamtökin könnun á því hvort seljendur hefðu lækkað útsöluverð á tóbaki í kjölfar lagabreytingarinnar og verðlækkunar frá ÁTVR. Í ljós kom að einungis tveir af þeim tíu seljendum sem könnunin náði til höfðu lækkað verðið. Hinir höfðu einfaldlega hækkað álagningu sína. Er því fullt tilefni til að efast um að brottnám vörugjalda og lækkun efra virðisaukaskattsþreps komi til með að skila sér að fullu til neytenda.

Neytendasamtökin ítreka því þá skoðun sína, verði þær breytingar sem hér eru lagðar til að veruleika, að nauðsynlegt sé að koma upp skilvirku eftirlitskerfi til að fylgja því eftir að þessar breytingar skili sér til neytenda. Slíku eftirliti yrði svo að koma á fót strax enda lítur út fyrir, reynist þær ábendingar sem samtökunum berast á rökum reistar, að sumir seljendur hafi þegar hækkað verð til að eiga betra með að bregðast við lækkun síðar meir.

Um samráðshóp hagsmunaaðila: Í almennum athugasemdum við ofangreint frumvarp kemur fram að sérstakur stýrihópur hafi verið skipaður í þeim tilgangi að vinna tillögur að einfaldara virðisaukaskatts- og vörugjaldskerfi. Jafnframt kemur fram að stýrihópnum hafi verið gert að hafa reglubundið samráð við hagsmunasamtök launþega og vinnuveitenda og aðra þá sem hagsmuna hafa að gæta. Þá kemur fram að samráðshópur hagsmunaðila hafi verið skipaður og að í honum eigi sæti fulltrúar frá Alþýðusambandi Íslands, BHM, BSRB, Kennarasambandi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Félagi atvinnurekenda, Samtökum Atvinnulífsins, Samtökum aðila í ferðaþjónustu, Samtökum iðnaðarins og Samtökum verslunar og þjónustu, auk fulltrúa frá ríkisskattstjóra og tollstjóra. Neytendasamtökin lýsa vonbrigðum og jafnframt undran sinni á því að þeim hafi hvorki verið boðin þátttaka í umræddum hagsmunahópi né að haft hafi verið samráð við þau af hálfu stýrihópsins.

Að öðru leyti gera Neytendasamtökin ekki athugasemdir við ofangreint frumvarp.

Virðingarfyllst,
f.h. Neytendasamtakanna,
Jóhannes Gunnarsson, formaður

Slóð á frumvarpið.